Skoðun

Lítil saga af venjulegri konu á Íslandi

Lúðvík Bergvinsson skrifar
Árið 2006 tók einstæð móðir tólf milljónir króna að láni til 25 ára. Lánið var gengistryggt. Endurgreiðslum lánsins skyldi þannig háttað að hún greiddi aðeins vexti fyrstu fimm árin, en afborgun af höfuðstól og vexti eftir það. Hún átti íbúð sem á þeim tíma var metin á 25 milljónir króna. Veðsetningin var því rúmlega 40% af markaðsvirði hennar. Þegar lánið var tekið fylgdi greiðsluáætlun frá bankanum um að við lok lánstímans, árið 2031, hefði hún greitt alls 17.116.450 kr. í afborganir og vexti. Hún var meðvituð um að gengi krónunnar gæti sveiflast á tímabilinu en lagði traust sitt á ábyrgar banka- og eftirlitsstofnanir. Því væri þetta vel viðráðanlegt.

Svo kom hrunið. Hún tók aldrei stöðu á móti krónunni eins og bankinn. Hún varð ekki gjaldþrota eins og bankinn. Hún fór ekki óvarlega í fjármálum eins og bankinn. Gengistrygging lánsins var síðar dæmd ólögmæt. Í kjölfarið var lánið endurreiknað eins og um allt annað lán hefði verið að ræða, þ.e. einhvers konar „ímyndað lán“ með vöxtum sem aldrei hefði komið til álita að samþykkja við lántöku. Niðurstaða afturvirka endurútreikningsins gaf þá sérstæðu niðurstöðu að virði lánasamningsins jókst frá því sem áður var. Henni þykir það skrýtin afleiðing af ólögmætri hegðun að sá brotlegi hagnist þegar réttlætið í formi endurútreiknings kemur til bjargar.

Síðar kom í ljós að bankinn hafði allan tímann vitað að gengistryggð lán væru ólögmæt. Hún er því ósammála stjórnvöldum um að ábyrgð á ólögmæti lánveitingarinnar sé alfarið hennar – en ekki bankans – þó að hún hafi eins og aðrir miklar áhyggjur af „gæðum lánasafns bankans“, sem er eitt helsta tískuhugtak samtímans. Henni finnst þó óeðlilegt að eftir endurútreikning lánsins, þ.e. haldist vextir stöðugir til loka lánstímans, sé gert ráð fyrir því að hún endurgreiði bankanum alls 70 milljónir króna í stað þeirra ríflega 17 milljóna króna sem upphafleg greiðsluáætlun gerði ráð fyrir. Það er ekki lánið sem hún tók.

Eftir endurútreikning hafa mánaðarlegar afborganir fjórfaldast frá því sem ráð var fyrir gert en tífaldast frá því sem var gert ráð fyrir í upphafi meðan aðeins voru greiddir vextir. Til að standa undir afborgunum eftir endurútreikning lánsins hefur hún aukið við sig vinnu, hefur tekið út allan sinn séreignarsparnað og fær fjárhagslegan stuðning frá öldruðum foreldrum sínum. Þrátt fyrir að hún viti að höfundar á lausnum þessa gengislánaleikrits hafi hvorki skrifað handritið út frá hennar hagsmunum, né að hún gangi með þá grillu í kollinum að eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar hafi verið samið sérstaklega fyrir hana, er henni misboðið. Þrátt fyrir að hún hafi mikinn vilja til að standa við sitt hefur hún ákveðið að hafna endurútreikningi bankans, sem efnislega felur í sér að hún láti sér nægja að njóta lífsins í næsta lífi en vinna fyrst og fremst fyrir bankann í þessu. Hún telur að þessi niðurstaða, sem kemur til vegna ólögmætrar lánveitingar, geti ekki verið rétt ef eitthvert réttlæti er til, enda tók hún aldrei það lán sem nú er ætlast til að hún greiði af. Þetta er aðeins ein lítil saga eða lýsing af því sem er að gerast á Íslandi þessa dagana. Ótal önnur sambærileg dæmi mætti nefna.




Skoðun

Sjá meira


×