Skoðun

Óljós mörk eðlilegrar tortryggni og vænisýki

Ingvar Christiansen skrifar
Hrunið, blessuð sé minning þess, fór ekki framhjá neinum og urðu fleiri en vildu bein eða óbein fórnarlömb þess, þrátt fyrir að hafa jafnvel á engan hátt verið sníkjudýr góðærisins. Blessuð sé einnig minning þess.

Við blasir blákaldur veruleikinn og afleiðingar þess sem á undan er gengið, bæði góðs og ills. Flestir hafa skoðanir á því hvernig ráðamönnum þjóðarinnar, atvinnulífsins, launþegahreyfingarinnar, einstaka fyrirtækja og heimilisföðurnum hefur tekist upp við að blása lífi í glæðurnar sem þó enn loga. Það er vel að fólkið í landinu hafi skoðanir. Rétt eins og hver einstaklingur hefur skoðanir á hinum ýmsu hlutum hefur hann líka val um ýmislegt. Þar á meðal sinn eigin þankagang.

Brennt barn forðast eldinn og á það vel við í tilfelli okkar Íslendinga sem gengið höfum í gegnum eld og brennistein oftar en einu sinni. Önnur staðreynd veruleikans er sú að þótt við höfum brennt okkur þá stöndum við ekki í ljósum logum. Almenn umræða í þjóðfélaginu virðist vera komin á það stig að fólk sé hrætt við góðverk. Hinn góði og gegni borgari virðist horfinn og alls staðar leynast merðir sem ekkert gott gengur til, þótt þeir reyni vissulega að láta svo líta út, þá hlýtur eitthvað sviksamlegt að liggja að baki.

Hvers vegna er hugsanaháttur Íslendinga í garð náungans orðinn svo tortrygginn og efasemdafullur? Vissulega gerðust á okkar ylhýra landi atburðir sem réttilega geta orsakað tortryggni og efasemdir um heiðarleika samborgaranna, en öllu má nú ofgera. Erum við ekki að detta á síðasta söludag með þessar neikvæðu hugsanir og drulluspól í hjólfarinu? Það er verið að moka skítinn sem nær okkur upp á hné og þó svo væri ekki nema rétt á meðan ættum við ekki að fyllast efasemdum um manninn með skófluna. Kannski er hann bara hjálpsamur og góðhjartaður einstaklingur sem ber hag náungans fyrir brjósti. Er virkilega svo erfitt að trúa því. Einhver gæti séð sér hag í því að moka, þó ekki væri nema launin hans.

Við efumst ekki um nágrannann á jeppanum sem dregur Yarisinn okkar úr snjóskaflinum á veturna, en sá sem sér upphækkaðan jeppann fyrir utan Landsbankann er viss um að þar sé á ferð einhver vafasamur einstaklingur. Á sama tíma er nágranninn að semja við bankann um afborganir af húsnæðisláninu sínu. Hvers vegna grunum við svona marga um græsku og hvað höfum við upp úr því?

Hættum þessari vænisýki og höldum áfram með okkar eigið líf. Hættum að tortryggja hverja einustu gjörð annarra og einbeitum okkur að öllu því jákvæða sem í kringum okkur er. Batnandi mönnum er best að lifa og á það jafnt við um okkur sjálf eins og aðra. Góður maður sagði eitt sinn: „If they can make pencillin out of mouldy bread, they can sure make something out of you.“

Höldum okkur innan marka eðlilegrar tortryggni og hjálpumst að við að gera það besta úr okkur sjálfum, öðrum og þjóðfélaginu okkar sem er svo ríkt.




Skoðun

Sjá meira


×