Skoðun

„Tannlæknablóðsuga“ svarar fyrir sig

Sigurjón Benediktsson skrifar
Ráðherra velferðarmála hóf ófrægingarherferð gegn tannlæknum og þeirra starfi úr ræðustól Alþingis í síðustu viku. Fótgönguliðar ráðherrans bregðast skjótt við herútkallinu og hamast í öllum miðlum með dyggri hjálp fréttamanna. Óhróðri og blekkingum er jafnóðum dælt út frá embættismannaliðinu sem hlýðir kalli meistara síns.

Ráðherrann getur glaðst yfir árangrinum. Tannlæknar eru nú samkvæmt áróðri ráðherrans, sneyddir skilningi á samhjálp og félagslegri liðveislu og orðrétt segir einn dyggur fótgönguliði ráðherrans: „…tannlæknablóðsugurnar hér á landi eru skítsama um tekjulága foreldra hér á landi þessi stétt hugsar bara um sitt eigið rassgat og blóðmjólkar kúnnann mörgum sinnum.“

Þrjúhundruð milljónirnar.Þrátt fyrir þessa herleiðingu ráðherrans væri honum nær að svara því hvað varð um þau hundruð milljóna (meira en milljarður á síðustu árum) sem fjárveitingavaldið ætlaði til tannlækningatrygginga en voru ekki nýttar. Sjúkratryggingar svara því til að þessir aurar hafi „bara farið í hítina“!? Þessi sára neyð barna og þörf á tannlækningum var ekki metin meiri en svo af ráðherranum og forverum hans, að framlag Alþingis til tannlæknatrygginga fór ekki til tannlækninga barna og ungmenna, heldur „fór bara í hítina“. Hítin er auðvitað reisur ráðherra og risna embættisliðsins.

Eitt hundrað og fimmtíu milljónirnarÞegar ráðuneyti velferðarmála þurfti ný leiktjöld vegna sinnuleysis og klúðurs ráðuneytisins í tannheilsumálum var farið af stað með „átak“. Það var kynnt þannig að nýr sjóður hefði verið myndaður upp á 150 milljónir sem varið skyldi til tannlækninga þeirra sem ráðuneytið skilgreindi sem fátæka. Þessi „sjóður“ er blekking. Framlagið í „sjóðinn“ er tekið úr framlagi Alþingis til tannlæknatrygginga.

Tryggingaþegum er því mismunað, framlag skert hjá sumum og fært til annarra án nokkurra lagaheimilda eða raka.



Auglýsingar og ferðakostnaður

Ráðherra velferðarmála ætti að svara því hvað miklu hefur verið varið til auglýsinga á þessum „ókeypis“ tannlækningum. Auglýsingum sem hafa dunið á okkur í öllum fjölmiðlum. Auglýsingum sem kynna vel og dyggilega manngæsku ráðherrans og samúð með „fátækum“. Og mannvonsku tannlæknastéttarinnar að taka ekki þátt í fúskinu. Einnig ætti ráðherrann að svara því hvað mikið fer í ferðakostnað tryggingaþega og fylgdarmanna til að uppfylla kvaðir ráðherrans um „ókeypis“ tannlækningar í Reykjavík, einu sveitarfélaga. Til hliðsjónar má benda ráðherranum á að greiðsla SÍ til tannlækninga tryggingaþega sem leituðu lækninga hjá blóðsugunni nam alls 1,7 milljónum á síðasta ári.

Staða og aðkoma tannlæknadeildar HÍSú ógæfa hefur hent tannlæknadeild að hafa eytt umfram heimildir tugmilljóna króna á undanförnum árum. Líklega ein verst rekna deild HÍ. Þessu varð að sópa undir stól. Til að færa úr einum vasa ríkissjóðs í annan þá rennur framlag velferðarráðherrans til tannlækninga „fátækra“ barna í vasa menntamálaráðherrans á formi greiðslu til tannlæknadeildar vegna átaksins. Snilldin er augljós en sukkið í fjármunum almennings með þessum tilfærslum er hvorki haldið á lofti af fótgönguliðum né embættisliðinu. Átakið er sem sé til að laga bága fjárhagsstöðu tannlæknadeildar eins og forseti deildarinnar hefur kynnt tannlæknum.

Hvar er fagmennskan?Ráðherra velferðarmála gortaði sig af því að hann hefði verið skólamaður í 27 ár. Þess vegna er hann eins og leir í höndum embættismanna sem hugsa um það eitt að hafa nóg af peningum handa á milli til að halda góðri siglingu á skrifstofuhaldi og pappír ráðuneytisins. Deildarstjóri í velferðaráðuneytinu, tannlæknir að mennt, upplýsir að 150 börn hafi verið skoðuð í þessu átaki. Hafi verið skoðuð! Með sama áframhaldi tekst ekki einu sinni að skoða þau 574 börn sem þegar eru skráð í þetta átak. Og hvað svo? Langflest þessara barna hafa verið hjá tannlæknum sem hafa skoðað þau og ástand þeirra liggur fyrir. Þessi átaksskoðun breytir því engu um tannheilsu þessara barna. Engin eftirfylgni, engar tannheilsubætandi aðgerðir, ekkert hefur breyst. Þetta er fúsk.

Af hverju vantar tannlækna í þetta „átak“?Af eintómri smekkvísi telur deildarstjóri velferðarráðuneytisins (tannlæknir) að kæra eins tannlæknis til samkeppniseftirlitsins hafi gert útslagið að tannlæknar fáist ekki til að taka þátt í þessu átaki.

Undirrituð tannlæknablóðsuga kærði þetta verkefni velferðaráðherra þar sem engar faglegar forsendur eru fyrir framkvæmd verkefnisins, gróflega er verið að mismuna tryggingaþegum, tryggingaþegar eru flokkaðir eftir tekjum en ekki tannheilsu, átakið kostar margfalt meir en að greiða fyrir nauðsynlegar tannlækningar allra barna og ungmenna og peningum er ausið í auglýsingar, stjórnun og ferðakostnað. Auk þess er verkefni ráðherra í beinni samkeppni við mig sem greidd er niður af almannafé. Það hefur aldrei verið sýnt fram á að tekjulágir hafi verri tennur en aðrir þjóðfélagshópar. Í rannsókn sem undirrituð blóðsuga framkvæmdi í Úganda kom einmitt í ljós að flestar tannskemmdir voru í börnum þeirra sem töldust efnameiri á þeirra mælikvarða. Fyrstu tannskemmdir á Íslandi greindust í tönnum biskupa sem voru yfirstéttin á 18. öld.

Að lokumÉg er tannlæknir með stofu í rekstri. Þarf að greiða lögboðin gjöld af mínum rekstri, laun og viðhald, endurnýja tæki, leggja til bestu efni og áhöld. Ég get ekki boðið ókeypis tannlækningar. Ég get ekki keppt við „átak“ ráðherrans. Ég, einn vesæll maður, stenst ekki árásir blýantsnagara ráðuneytisins, níð fótgönguliða hans, árásir og útúrsnúninga fréttaliðsins. Ráðherra velferðarmála hóf ófrægingarherferð sína með því að halda fram að tannlæknar notuðu börn sér til framdráttar í kjarabaráttu. Til að koma honum í skilning um hvað hann sagði þá fullyrði ég að hann noti heimatilbúna skilgreiningu á fátækt og slæma tannheilsu barna til að upphefja pólitíska persónu sína og til að koma höggi á mig og starf mitt.




Skoðun

Sjá meira


×