Skoðun

Fíkn

Siv Friðleifsdóttir skrifar
Brýnt er að verja ungmenni gegn því að þróa með sér fíknsjúkdóma. Orsakir fíknsjúkdóma eru taugalífeðlisfræðilegar breytingar í heila. Tóbaksfíkn er slíkur sjúkdómur, langvinnur og hættulegur. Því er rétt að vinna gegn því að ungmenni hefji reykingar.

Áhættan fyrir því að þróa tóbaksfíkn ef neysla er hafin er veruleg. Rannsóknir hafa sýnt að það er síst auðveldara að hætta neyslu tóbaks en kókaíns og amfetamíns. Flestir sem reykja byrja á unglingsaldri. Því yngri sem einstaklingurinn er því líklegra er að hann þrói með sér tóbaksfíkn. Þeir sem eru veikastir af tóbaksfíkn eiga erfitt með að hætta, jafnvel þótt lífið liggi við. Þessi vitneskja sýnir að reykingar og önnur tóbaksnotkun eru yfirleitt ekki frjálst val fullorðins upplýsts einstaklings.



Íslendingar hafa tekið mörg jákvæð skref í forvörnum gegn reykingum, nú síðast bann við reykingum á skemmtistöðum. Þrátt fyrir það draga tóbakssjúkdómar um 300 Íslendinga til dauða árlega. Til samanburðar látast um 10 manns í umferðinni árlega, eða 30 sinnum færri en úr reykingum. Allar þessar tölur þurfa að lækka. Því miður reykja um 20% ungmenna um tvítugt hérlendis og 700 ungmenni ánetjast tóbaki á Íslandi á ári, eða um tveir á dag. Ætla má að helmingur þessara ungmenna falli frá fyrir aldur fram vegna reykinga. Viljum við ekki öll gera það sem í valdi okkar stendur til að hindra slíka nýliðun reykingamanna? Svarið hlýtur að liggja í augum uppi. Vegna þessa hefur undirrituð ásamt meðflutningsmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum á Alþingi lagt fram þingsályktun unna á grundvelli ályktana Tóbaksvarnarþings. Felur hún í sér að unnin verði 10 ára aðgerðaráætlun um tóbaksvarnir þar sem einn liðurinn verði sá að sala á tóbaki verði í áföngum takmörkuð við apótek. Þeir sem reykja gætu þannig áfram nálgast tóbakið en börn og unglingar yrðu betur varin gegn því að hefja reykingar. Tillagan svarar ákalli fjölmenns Tóbaksvarnarþings.




Skoðun

Sjá meira


×