Skoðun

Samþykki á að draga til baka

Í frétt á mbl.is síðdegis 30. apríl segir: „Hersveitir NATO hafa varpað sprengjum á stjórnarbyggingu í Trípólí þar sem m.a. ríkissjónvarpið er til húsa. Yfirvöld í Líbíu segja að tilgangur loftárásarinnar hafi verið að drepa Gaddafi þegar hann var að ávarpa þjóðina í ríkissjónvarpinu.“

Í sömu frétt er sagt að NATO hafi hafnað boði Gaddafis um vopnahlé.

Síðla kvölds bárust síðan fréttir af því að flugvélar NATO hefðu gert árás á hús Gaddafis í Trípólí þá um kvöldið. Sonur hans og þrjú ung barnabörn fórust. Í húsinu voru einnig Gaddafi sjálfur, eiginkona hans og fleiri úr fjölskyldunni.

Um þetta þarf í sjálfu sér ekki að hafa fleiri orð. Hér var um hreina morðárás að ræða og barnamorð í ofanálag. Í fljótu bragði verður ekki annað séð en þetta hafi verið stríðsglæpur.

NATO tók þann 25. mars yfir hernaðargerðir í Líbíu sem höfðu að forsendu ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1973 frá 17. mars. Ályktunin hefur verið umdeild enda sátu fimm ríki hjá. Með henni var sett á loftferðabann yfir Líbíu. Jafnframt er tekið fram að hún miði að verndun almennra borgara og lausn átakanna en ekki að knýja fram stjórnarskipti. Árásir á sjónvarpsstöð og heimili og önnur borgaraleg skotmörk eru því langt utan við það sem þessi ályktun heimilar.

Aðgerðir NATO hafa líklega frá upphafi farið út fyrir ramma ályktunarinnar og sannanlega þessar aðgerðir. Margir hafa gagnrýnt samþykki íslensku ríkisstjórnarinnar við aðgerðir NATO. Forystumenn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs hafa sagt að utanríkisráðherra hafi veitt þetta samþykki án þess að leita álits VG. Í ályktun stjórnar VG 25. mars segir: „Stjórn Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs fordæmir allar aðgerðir í Líbíu sem ekki eru í samræmi við samþykkt Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.“

Á fundi sínum 20.-21. maí skerpti flokksráð VG á þessu með ályktun þar sem segir: „Flokksráð VG fordæmir loftárásir NATO á Líbíu og skorar á þingmenn VG að bera fram á Alþingi þingsályktunartillögu þar að lútandi,“ en á sömu leið ályktaði kjördæmisráð flokksins í Suðurkjördæmi á fundi sinum 7. maí.




Skoðun

Sjá meira


×