Skoðun

Alþjóðadagur tjáningarfrelsis

Luis Arreaga skrifar
Sameinuðu þjóðirnar efndu til Alþjóðadags tjáningarfrelsis, sem haldinn er hátíðlegur á hverju ári um allan heim þann 3. maí, til að vekja athygli á meginreglum frjálsrar fjölmiðlunar og minnast þeirra sem hafa barist og látið lífið við að reyna að framfylgja þeim. Á þessu ári taka Bandaríkin höndum saman við Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og halda alþjóðadag tjáningarfrelsis hátíðlegan í fyrsta skipti í Washington, D.C.

Yfirskrift þessa árs, „Fjölmiðlar 21. aldar – Nýir miðlar, nýjar hindranir" endurspeglar þær miklu breytingar á aðgengi að upplýsingum sem stafræna tæknin hefur gert mögulegar. Internetið er alþjóðlegt tæki sem hefur magnað kröfur um tjáningarfrelsi og önnur alhliða mannréttindi, auðveldað líflegar og opnar umræður um fjölbreytt málefni og myndað tengsl á milli borgara innan ríkja og á milli fólks úti um allan heim.

Íslendingar og Bandaríkjamenn hafa skuldbundið sig til að styðja fjölmiðlafrelsi. Við vitum að það er nauðsynlegt að stofna og hlúa að sjálfstæðum, fjölbreyttum og frjálsum fjölmiðlum til að siðuð og lýðræðisleg þjóðfélög geti þróast bæði heima fyrir og annars staðar í heiminum. Blaðamenn gegna lykilhlutverki við að greina stefnur og strauma, viðhalda trúverðugleika og segja fréttir almenningi til hagsbóta. Í frjálsum samfélögum starfa fjölmiðlar óttalaust og ákveða innihald sitt, bæði hvað fréttir varðar og annað efni eins og menningarumfjöllun, án takmarkana eða lagasetninga yfirvalda.

Við stöndum frammi fyrir þýðingarmiklum breytingum í sögu heimsins. Um allan heim krefst fólk frelsis, gegnsæis og sjálfsákvörðunarréttar. Ný stafræn tækni styður þennan málstað á hraðvirkari og víðtækari hátt en nokkru sinni fyrr, og blaðamenn gegna lykilhlutverki í þessum málum. Til allrar óhamingju hafa margir þeirra látið lífið eða slasast þegar þeir hafa leitast við að segja fréttir af þeim alvarlegu viðfangsefnum sem við stöndum nú frammi fyrir. Á Alþjóðadegi tjáningarfrelsis heiðrum við arf þeirra og fórnir sem þeir færðu til að tryggja að allir, alls staðar fengju notið grundvallarréttar til frjálsrar fjölmiðlunar.




Skoðun

Sjá meira


×