Skoðun

Ég er aðskilnaðarsinni

Jórunn Sörensen skrifar
Mikið er það dásamlegt að fötluð börn skuli eiga óskoraðan rétt á því að ganga í almenna skóla. Rétt sem meira að segja er ein af grundvallarreglum Sameinuðu þjóðanna um skóla án aðgreiningar. Það er aftur á móti verra að það virðist henta ráðamönnum í íslensku skólakerfi að oftúlka þennan rétt og gera hann að skyldu og gleyma annarri jafn mikilvægri grein, þar sem kveðið er á um að þegar almenna skólakerfið uppfyllir ekki þarfir fatlaðs barns getur sérkennsla verið hentugasta kennsluformið.

Það er ekki sjálfgefið að forsvarsmenn menntamála í Reykjavík kunni skil á öllu sem þeir þurfa að fjalla um, eins og til dæmis hverjir geta gengið saman í skóla – þeir þurfa að leita ráða. Ráðin sem þeir fá og hlusta á, að því er virðist gagnrýnislaust, eru frá fólki sem setur öll fötluð börn í eina skúffu.

Það er grundvallarmunur á því hvort barn er líkamlega eða vitsmunalega fatlað. Öll börn sem ekki eru þroskaskert eiga að sjálfsögðu heima í almennum skóla. Þau sem þurfa sérstök hjálpartæki eins og hjólastól eða góð handrið á göngum fá slíkt og þau sem ekki heyra eða sjá fá sérstaka aðstoð. Ég hef engar áhyggjur af þeim börnum. Þau hafa eðlilega greind og eignast önnur börn sem félaga og vini á jafnstöðugrunni.

Ráðamenn stefna nú að því að eyðileggja Öskjuhlíðarskóla. Skólinn á ekki lengur að vera fyrir börn sem mælast með greindarvísitölu 50-70 (kallast „væg“ þroskahömlun) nema eitthvað mikið meira komi til, svo sem fjölfötlun. Reyndar hefur börnum með greindarvísitölu 50-70 verið vísað frá skólanum í nokkur undanfarin ár og mér er kunnugt um að mörg þessara barna eiga vonda ævi í sínum hverfisskóla.

Árið 2009 fékk Öskjuhlíðarskóli hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands. Og af hverju fékk skólinn þessi virtu verðlaun? Jú, vegna þess að skólinn er framúrskarandi og sinnir hlutverki sínu gagnvart nemendum eins vel og nokkur kostur er. Þetta get ég tekið undir því ég á barnabarn sem átti því láni að fagna að fá inngöngu í Öskjuhlíðarskóla eftir að hafa verið þrjú ár í sínum hverfisskóla. Fyrsta árið gekk þokkalega, annað árið illa en þriðja árið gekk hörmulega, bæði fyrir barnabarnið mitt sem og hina eðlilega greindu samnemendur. Bilið á milli vitsmunalegs þroska á milli barnabarnsins míns og þeirra jókst hröðum skrefum eftir því sem árin liðu. Skólafélagar barnabarns míns munu allir geta séð um sig sjálfir og stjórnað lífi sínu sem fullorðið fólk. Það mun barnabarnið mitt aldrei geta.

Munurinn á milli þess að vera með eðlilega greind eða með greind sem mælist 50-70 er gífurlegur og mér finnst furðulegt að svo mikil greindarskerðing skuli kallast „væg“. Er það til þess draga úr áfalli foreldra barns þegar í ljós kemur að barnið þeirra er þroskaheft eða er það til þess að slá ryki í augu fólks almennt?

Í mínum huga er það óskiljanlegt að það eigi að fara að skemma Öskjuhlíðarskóla. Af hverju á að eyðileggja það sem er í fullkomnu lagi? Er ekki nóg af vandamálum úti um allt svo það sem er í lagi fái að vera í friði?

Ég skora á skólayfirvöld í Reykjavík að leyfa Öskjuhlíðarskóla að taka við börnum með „væga“ þroskahömlun og veita þeim skólagöngu þar sem þau geta lært og þroskast eftir persónulegri getu hvers og eins. Þar geta þau átt góðar stundir með félögum sínum innan skóla og utan því foreldrar barna í Öskjuhlíðarskóla telja það ekki eftir sér að aka barni sínu í heimsókn til félaga. Það eru mannréttindi að ganga í skóla þar sem allir hlæja að sömu bröndurunum.




Skoðun

Sjá meira


×