Skoðun

Icesave, þjóðaratkvæði og kvótinn

Guðmundur Örn Jónsson skrifar
Það er hægt að draga ýmsan lærdóm af nýafstaðinni þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem tiltölulega fámennur hópur lítt þekktra aðila hafði sigur á öllum helstu ráðamönnum þjóðarinnar sem höfðu fylkt sér bakvið Já-ið.



Traust á ráðamönnum er í algeru lágmarki og kjósendur fylgja ekki leiðtogum sínum í flóknum málum, þrátt fyrir fullyrðingar þeirra um efnahagsleg áföll.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru komnar til að vera, a.m.k. meðan núverandi forseti er við völd og ef starf stjórnlagaráðs nær fram að ganga.



Ríkisstjórnin stefnir að því að leggja fram frumvarp um stjórn fiskveiða á næstunni og svo virðist sem fulltrúi LÍÚ í þingliði vinstri grænna muni móta það að miklu leyti. Ef það frumvarp tryggir ekki öllum Íslendingum jafnan rétt til nýtingar auðlindarinnar og gjald fyrir afnotin endurspeglar ekki verðmæti hennar, má búast við að það frumvarp fari sömu leið og Icesave.



Í slíku máli er auðvelt að sýna fram á „gjá milli þings og þjóðar“ og koma því í þjóðaratkvæðagreiðslu, enda liggur vilji þjóðarinnar fyrir eftir fjölmargar skoðanakannanir. Þegar eru til samtök sem munu berjast gegn málinu og er málflutningurinn sjálfur svo minnsta málið. Málefni gjafakvótans eru tiltölulega einföld miðað við Icesave og hægt er að vitna í fjölmarga virta erlenda aðila málstaðnum til stuðnings. Þar á meðal þrjá Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Ekki sakar svo að gjafakvótinn er mannréttindabrot samkvæmt Sameinuðu þjóðunum og að í þjóðaratkvæðagreiðslu er atkvæðavægi jafnt.



Afleiðingarnar fyrir stjórnarflokkana yrðu þó mun meiri en í Icesave, a.m.k. fyrir Samfylkinguna. Stuðning við slíkt frumvarp mætti líkja við sjálfsmorð flokksins og núverandi þingmenn ættu varla afturkvæmt.



Leiðtogar Samfylkingarinnar þurfa því að sjá til þess að landsmenn verði upplýstir um afstöðu vinstri grænna í kvótamálinu og boða í kjölfarið til kosninga. Samstarf við Vinstri græn er fullreynt og eingöngu þannig verður möguleiki á sams konar stjórn á landsvísu og er nú í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×