Skoðun

Átök á milli stjórnmálaflokka eru til góðs fyrir kjósendur

Eva Heiða Önnudóttir skrifar
Því hefur oft verið fleygt fram í opinberri umræðu að stjórnmál gangi ekki út á neitt annað en pólitískt skítkast, innanflokksátök og ómálefnalegar umræður. Um leið er því gjarnan haldið fram að íslenska þjóðin þurfi að standa saman. Því er hampað að stjórnmálaflokkar vinni saman að sameiginlegum markmiðum til að leysa úr grundvallarvanda þjóðarinnar og þá oftast verið að vísa til efnahagskreppunnar sem Íslendingar hafa glímt við undanfarin rúm tvö ár. Stöldrum aðeins við og horfum á þetta út frá augum kjósenda. Það er allt eins hægt að líta svo á að átök í stjórnmálum séu til góðs fyrir kjósendur þar sem þau ættu að gefa skýrt merki um hvar hver flokkur stendur í einstaka málum. Þar með gera átökin það að verkum að kjósendur eiga auðveldara með að gera upp hug sinn, til dæmis þegar kemur að því að velja á milli flokka í kosningum.

Þó að samvinna á milli allra stjórnmálaflokkanna hafi yfir sér „jákvætt“ yfirbragð þar sem allir vinna saman og eru „vinir“ þá eru líka nokkrar hættur í því fólgnar. Fyrsta augljósa hættan er að með slíkri samvinnu getur verið ómögulegt að komast að niðurstöðu sem allir eru sáttir við. Í öðru lagi gæti niðurstaða samvinnunnar takmarkast af þeim sem skemmst vilja ganga, niðurstaða sem er ekki alltaf til góðs fyrir kjósendur. Í þriðja lagi, þá getur samvinna allra flokka gert línur á milli þeirra óskýrar þar sem kjósendur eiga erfitt með að gera sér grein fyrir hvar eða hvort það skilur á milli flokka. Átök stjórnmálaflokka í málum sem varða þjóðarhagsmuni eru því mikilvæg fyrir kjósendur þar sem þau draga fram hvar skilur á milli flokkanna. Því er samt sem áður ekki hægt að neita að einstaka málum sem varða þjóðarhagsmuni gæti mögulega verið betur varið í breiðri samvinnu flokka til þess að reyna að tryggja sátt um niðurstöður. Það virtist vera tilgangur samvinnu stjórnmálaflokkanna um síðasta Icesave-samninginn. Málið tók óvænta stefnu þegar forsetinn ákvað að synja lögunum staðfestingar og vísa þeim þar með til þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem samningnum var hafnað.

Í kjölfarið hófst pólitískur leikur á milli flokkanna sem er langt frá því að vera merki um samstöðu þeirra til að vinna saman. Því var haldið fram af sumum þingmönnum stjórnarflokkanna að vantrauststillaga Sjálfstæðisflokksins væri ekkert annað en pólitískt útspil formannsins til að styrkja stöðu sína innan Sjálfstæðisflokksins. Á móti lýsti formaður Sjálfstæðisflokksins því yfir að tilgangurinn væri að kanna hver væri raunverulegur þingstyrkur stjórnarinnar. Niðurstaðan varð sú að stjórnin sat uppi með eins manns meirihluta. Hver sem tilgangurinn var þá er þetta skýrt dæmi um það að stjórnmál ganga út á átök. Svo lengi sem átökin eru friðsamleg og málefnaleg þá eru þau til góðs fyrir kjósendur þar sem þau skýra línur á milli flokkanna. Kjósendur geta lesið á milli línanna og greint málefnaleg rök frá pólitísku „skítkasti“ og jafnvel séð málefnaleg rök í „skítkastinu“ sjálfu.

Icesave-samningurinn er dæmi um mál þar sem afstaða flokkanna til samningsins gefur kjósendum ekki skýrt merki um hvar einstaka flokkar standa, þó hún gefi merki um hvar einstaka þingmenn standa. Leiða mál líkum að því að í næstu alþingiskosningum verði það því önnur mál en nýjasti Icesave-samningurinn sem mun hjálpa kjósendum að gera upp hug sinn. Það verða mál sem hefur verið tekist á um, jafnvel með pólitísku „skítkasti“. Málefnaleg og jafnvel stundum hörð átök geta því allt eins verið merki um heilbrigt fulltrúalýðræði þar sem kjósendur fá skýr skilaboð um hvar hver flokkur stendur í mikilvægum málum.




Skoðun

Sjá meira


×