Skoðun

Ríkið hefur varið störf kvenna

Hildur Jónsdóttir skrifar
Í febrúar voru 13.772 manns á atvinnuleysisskrá. Það er hryggileg staðreynd og íslenskt samfélag þolir það ekki til lengdar. Atvinnuleysið er 9,3% meðal karla, 7,8% meðal kvenna. Frá hruni hafa fleiri störf tapast en sem þessu nemur, allt að 20.000. Muninn má að mestu skýra með erlendu vinnuafli sem fór af landi brott, en einnig sókn eftir aukinni menntun. Nú hafa heyrst yfirlýsingar sem helst má skilja sem svo að ríkið hafi unnvörpum skorið niður kvennastörf. Ekkert er fjær sanni. Tölur yfir atvinnuleysi leiða hið sanna í ljós.

Atvinnuleysið birtist á einkamarkaðinumFrá febrúar 2008 til febrúar 2010 misstu 13.640 manns atvinnuna, 8.416 karlar og 5.204 konur samkvæmt Vinnumálastofnun. 97% karlanna og 84% kvennanna komu úr einkageiranum. Aðeins 7,9% þessa mikla fjölda misstu starf hjá ríki eða sveitarfélögum. Um tveir af hverjum þremur ríkisstarfsmönnum eru konur og er hlutfallið enn hærra hjá sveitarfélögunum. Því er ólíku saman að jafna þegar horft er til einkageirans eða hins opinbera. Í einkageiranum hafa verið hoggin djúp skörð í heilar atvinnugreinar meðan tekist hefur að verja störf hjá hinu opinbera að mestu. Það hefur verið stefna stjórnvalda að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir uppsagnir þrátt fyrir að niðurskurður hafi verið óhjákvæmilegur.

2009 og 2010 fækkaði stöðugildum hjá ríkinu um 545. Þar af eru stöðugildi kvenna 475. Hvert tapað starf er einu starfi of mikið. Á Landspítalanum einum hefur stöðugildum fækkað um 350 á tveimur árum. Langt í frá allir sem úr þessum stöðugildum hafa horfið lentu á atvinnuleysisskrá. Þannig láta árlega nokkrir af störfum sökum aldurs, veikinda og annars, en höfum í huga hinn gríðarlega fjölda starfsmanna heilbrigðisþjónustunnar. Við bætist að sums staðar hefur þjónustuþáttum verið útvistað með því skilyrði að hluti þeirra sem þeim sinntu áður yrði endurráðinn hjá nýjum atvinnurekanda. Á Landspítalanum nemur fækkun stöðugilda af þeirri ástæðu um 100 af 350 í allt.

Ríkisstjórnin hefur forgangsraðað störfum konum í vil. Minnast má að við fjárlagagerð fyrir árið 2011 stóðu uppsagnir um 634 kvenna á heilbrigðisstofnunum víða um land fyrir dyrum. Fallið var frá ríflega 80% þeirra. Á móti hafa opinberar framkvæmdir verið skornar niður eða þeim frestað. Þar hafa karlastörf tapast. Því má allt eins halda fram að stjórnvöld hafi kosið að verja störf kvenna hjá hinu opinbera á kostnað starfa karla á einkamarkaði, en á þeim bitnar niðurskurður framkvæmda helst. Markmiðið er ekki eitt og sér að verja kvennastörf, heldur ekki síður að verja þau lífsgæði sem felast í almannaþjónustu.

Aukin eftirspurn kemur öllum til góðaÍ tölum yfir atvinnulausa eftir atvinnugreinum frá febrúar 2008 til febrúar 2010 kemur fram að yfir fimmtungur allra atvinnulausra kvenna starfaði áður við verslun og viðgerðir, ríflega tíundi hluti við sérhæfða þjónustu á einkamarkaði, tæplega tíundi hluti við gisti- og veitingahúsastarfsemi og álíka í iðnaði. Mannvirkjagerð er langstærsta einstaka atvinnugreinin sem orðið hefur atvinnuleysinu að bráð, en um 20% karla sem misstu vinnuna á þessu tímabili störfuðu þar. Sú atvinnugrein sem kemur næst þegar horft er til karlanna er verslun og viðgerðir, þá iðnaður og hráefnavinnsla og loks leigustarfsemi og sérhæfð þjónusta.

Ljóst er að ef hamla á gegn atvinnuleysi nægir ekki að verja störf ríkisstarfsmanna. Örva verður eftirspurn í hagkerfinu og koma framkvæmdum af stað – þannig skapast atvinna fyrir bæði karla og konur. Á dögunum kynnti forsætisráðherra að um 2.200 störf væru framundan þegar horft væri til fjárfestinga á undirbúningsstigi hjá ríki og einkaaðilum, flest tímabundin meðan framkvæmdir vara, um fjórðungur framtíðarstörf. Í tengslum við yfirstandandi kjarasamningagerð hefur ríkisstjórnin lýst yfir að enn verði bætt í. Í nafni kynjaðrar fjárlagagerðar hafa ýmsir þóst geta fullyrt að þessar aðgerðir myndu aðeins gagnast körlum. Þetta er grunnhyggnisleg afstaða og með henni er horft framhjá samspili ólíkra atvinnugreina.

Mannvirkjagerð dregist samanRíkið hefur í grófum dráttum þrjár leiðir til að hamla gegn atvinnuleysi á einkamarkaði. Sú sem mestu skiptir felst í að tryggja góða efnahagsstjórn og hagstæða umgjörð atvinnurekstrar og fjárfestinga einkaaðila. Önnur lýtur að örvun nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi, m.a. með styrkjum og rannsóknum. Sú þriðja felst í að efna til beinna verkefna, oftast með útboðum á verklegum framkvæmdum. Frá síðustu aldamótum hafa framkvæmdir á vegum hins opinbera numið að meðaltali 17% af allri mannvirkjagerð. Þar er átt við vegaframkvæmdir, nýbyggingar, gangnagerð, brúarsmíði og viðhald þessara mannvirkja. Frá hruni hefur hlutdeild ríkisins í mannvirkjagerð haldist óbreytt, sem þýðir að opinberar framkvæmdir hafa dregist jafnmikið saman og í samfélaginu öllu eða um tvo þriðju miðað við árin 2005-2008 en um helming miðað við næstu ár á undan. Vegna fjárskorts hefur ríkið ekki með öflugum hætti beitt því tæki sem opinberar framkvæmdir geta verið til sveiflujöfnunar.

Í fyrirtækjum á þessu sviði starfa konur líka. Margfeldisáhrif á önnur störf geta verið allt að sexföld. Verkfræðingurinn, matráðurinn, launafulltrúinn, smiðurinn, bókarinn og gröfumaðurinn sem með þessu fengju aukin verkefni myndu væntanlega öll nota lungann af launatékkanum í verslunum, til kaupa á þjónustu og til að greiða af lánum. Innspýting af fjármagni inn á vinnumarkaðinn í heild eykur eftirspurn innan þeirra atvinnugreina þar sem atvinnuleysið er mest og þar starfa bæði karlar og konur.

Nokkur orð um kynjaða hagstjórnÞað er eitthvað fráhrindandi við það þegar einstaklingar með takmarkaðan áhuga á kynjaðri hagstjórn og enn minni þekkingu nota hugtakið sem slagvopn í atlögum sem hafa allt annan tilgang en að vinna þeirri aðferðafræði fylgis. Kynjuð hagstjórn snýst ekki um að líta eingöngu til hagsmuna kvenna. Hún snýst um að skilja hvernig ákvarðanir stjórnvalda hafa áhrif á bæði karla og konur og ekki síst samspil þar á milli þannig að fjármagni sé ráðstafað með hagsmuni beggja kynja í huga.




Skoðun

Sjá meira


×