Skoðun

Icesave með augum Íslendings í Hollandi

Gestur Viðarsson skrifar
Kæru Íslendingar.

Brátt verður kosið um nýjasta Icesave samninginn. Allir eru sammála að málið sé afar flókið og að kosið verður um hvor afarkosturinn sé skárri. Breyturnar eru mikilvægar og þónokkrar og því vandi um að velja. Fyrir marga er þetta samviskuspurning, en með samviskunni má færa góð rök fyrir því að svara bæði með eður ei. Fyrir marga er spurningin greinilega sú hvort það sé tildæmis réttlátt að „óviðkomandi” þriðju aðilar fari að borga innistæður reikninga ókunnuga einstaklinga og félaga í öðru landi? Hvort almenningur eigi að borga skuldir „óreiðumanna”?



En málið auðvitað flóknara en það. Með þeim samningum sem voru og eru í gildi, skuldbundum við okkur til að standa vörð um innistæður reikningseigenda í erlendum útibúum, allt að 20 þúsundir evra. Hollendingar tóku upp á sitt einsdæmi að tryggja innistæður upp á 100 þús. evra. Það er þeirra böggull. Heildarskuldir þrotabús föllnu bankana (skuldir „óreiðumannanna”) sem afskrifuðust við fall þeirra voru auðvitað margfalt hærri. Það sem eftir stendur eru inneignir einstaklinga og félaga allt að 20 þúsundum evra. Mörgum þessara eiganda finnst auðvitað réttlátt að Íslendingar borgi allar innistæður og er er heitt í hamsi.



Væri dæminu snúið við fyndist mörgum Íslendingum ekkert sjálfsagðara en að erlendir bankar eða ríki stæðu við sínar skuldbindingar gagnvart innistæðueigendum. Annað væri samningsbrot, glæpsamlegt, og frekar ljóst hvernig það mál færi fyrir dómstólum. Það er ekki bara að dómstólaleiðin sé áhættumeiri vegna dóma sem þá kynnu að falla og gætu þannig auðveldlega leitt til enn hærri Icesave reiknings, heldur líka vegna þess hversu mikils álithnekkis Íslendingar þá fengju á sig. Og það ofaná þann stimpil sem var byrjað að nota á okkur í kjölfar bankahrunsins 2008. Þá var Ísland- og voru Íslendingar lítið þekktir, en þeir sem til þekktu, þekktu okkur af góðu og heiðarlegum háttum. Þá fengum mikinn skell og villimannabragðkeim var að finna af okkur í sumum fjölmiðlum Evrópu, sem endurspeglaði almannaálitið a.m.k. í Hollandi. Sá faraldur hefur rénað, en myndi herja aftur af mun meiri styrk í kjölfar kosninganna sem framundan eru ef svarið við Icesave 3 verður neikvætt.



Viljum við þá finna enn betur fyrir þeim umræðum sem þá voru uppi með öllum þeim áhrifum á Íslenskt efnahagslíf sem veikt er fyrir? Verða fyrir enn frekari álitshnekki og fá „óreiðumannastimpilinn” á alla Íslendinga? Eða veljum við öruggari leiðina, látum innistæður þrotabúanna ganga upp í Icesave skuldirnar og verum borgunarmenn fyrir restinni ef einhver er? En umfram allt að við stöndum við þær lágmarkskuldbindingar sem við gengumst við og berum þannig höfuðið hátt í framtíðinni? Veljum viðstöðuminnstuleiðina út úr þessum vanda, bætum ekki gráu ofan á svart og segjum Já við síðasta og lokasamningi Icesave.




Skoðun

Sjá meira


×