Viðskipti innlent

Fjárfestar virðast passa upp á budduna

Hreingerningarisinn danski hefur hætt við skráningu á hlutabréfamarkað í bili. Fréttablaðið/GVA
Hreingerningarisinn danski hefur hætt við skráningu á hlutabréfamarkað í bili. Fréttablaðið/GVA
Stjórn danska hreingerningarisans ISS ákvað síðdegis á fimmtudag að fresta skráningu félagsins í dönsku kauphöllina í Kaupmannahöfn. Viðskipti áttu að hefjast með hlutabréf félagsins í dag.

Óvissu á alþjóðlegum hlutabréfamörkuðum eftir náttúruhamfarirnar í Japan, hættu á leka á geislavirku efni úr kjarnorkuverinu í Fukushima og átök í í Miðausturlöndum er um að kenna.

Beðið var eftir skráningu ISS með nokkurri eftirvæntingu. Jafn stórt hlutafjárútboð hafði ekki sést í dönsku kauphöllinni í fimmtán ár auk þess sem skráningin hefði orðið með þeim umfangsmeiri í Evrópu á árinu. Búið var að tryggja sölu hlutabréfa félagsins í frumútboði fyrir jafnvirði tæpra 290 milljarða íslenskra króna á ákveðnu verðbili. Stjórn ISS óttaðist hins vegar að aðstæður gætu sett strik í reikninginn og gengi hlutabréfa í félaginu lækkað á fyrsta degi.

ISS, sem er með starfstöð hér á landi, er ekki eina fyrirtækið sem hefur endurskoðað áætlanir sínar um skráningu á markað í vikunni. Breska dagblaðið Financial Times segir stjórnir fjölda fyrirtækja, jafnt í Asíu sem Evrópu, í sömu sporum. Þær hafi horft upp á mikið verðfall nýskráðra fyrirtækja á markað og hafi því ákveðið að bíða þar til aðstæður batna á fjármálamörkuðum. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×