Innlent

Helgi andvígur stjórnlagaráði

Helgi Hjörvar
Helgi Hjörvar
Skipan stjórnlagaráðs mundi skapa vont fordæmi og leita ber annarra leiða til að endurskoða stjórnarskrána, að mati Helga Hjörvar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem hyggst ekki styðja tillögu stjórnarflokkanna um stjórnlagaráð.

„Með tillögu um stjórnlagaráð freistar einfaldur meirihluti Alþingis þess að löggilda óbeinlínis það sem dómarar Hæstaréttar hafa ógilt. Það er vont fordæmi vegna þess að við höfum sett dómara Hæstaréttar til að gæta að mannréttindum, lögum og reglu, og það væri ófært ef Alþingi legði það í vana sinn að löggilda jafnharðan það sem dómararnir ógilda,“ sagði Helgi á Alþingi í gær.

Helgi segist vera ósammála Hæstarétti um að ógilda hafi átt kosningarnar, en ákvörðun réttarins beri engu að síður að virða. Ætli menn samt að fara þessa óheppilegu leið þurfi að breyta því sem segir um þjóðaratkvæðagreiðslu í tillögunni.

„Ef menn ætla að setja það góða fólk sem hér um ræðir til þeirra verka að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá með þessu óheppilega og takmarkaða umboði finnst mér lágmark að því sé sá sómi sýndur að það fái umboð til að leggja tillögu sína fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu áður en málið kemur aftur inn til þingsins.“

- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×