Skoðun

Ósmekkleg ummæli prófessors

Ragnar Árnason skrifar
Margt er ritað og sagt í fjölmiðlum. Mjög margt af því stenst ekki skoðun. Það myndi æra óstöðugan að elta ólar vil allt það sem missagt er á þeim vettvangi.

 

Ég fæ þó ekki orða bundist er prófessor við Háskóla Íslands, þeirrar stofnunar sem á að hafa hlutlæg vísindi og rökvísi að leiðarljósi, telur það við hæfi í rökræðu um mikilvægt þjóðhagslegt málefni að ráðast að starfsheiðri annars háskólamanns. Út í þá vilpu steig prófessor Þórólfur Matthíasson er hann reyndi að grafa undan málstað Helga Áss Grétarssonar sérfræðings við Lagstofnun með því að gera það að umræðuefni í grein í Fréttablaðinu í dag (23. febrúar) hvernig staða Helga væri fjármögnuð.

 

Nú er það svo að í vísindalegri umræðu skipta rök og gögn öllu, en málflytjandinn, persónulegir eiginleikar hans þjóðfélagsstaða o.s.frv. engu máli. Málstaður stendur og fellur með rökum og gögnum, ekki því hver flytur málið. Þetta er það sem átt er við með hlutlægri umræðu. Þetta er jafnframt afdráttarlaus krafa í vísindalegum skoðanaskiptum.

 

Það er einnig svo að fjölmargar stöður við Háskóla Íslands sem og aðra háskóla í heiminum eru og hafa verið fjármagnaðar af utanaðkomandi aðilum. Þeirra á meðal eru stöður við hagfræðideild Háskólans, þar sem Þórólfur starfar. Ég fæ ekki annað séð en þeir starfsmenn Háskólans sem setið hafa í stöðum sem fjármagnaðar hafa verið á þennan hátt að hluta eða öllu leyti hafi unnið störf sín af að minnsta kosti sömu alúð og prýði og aðrir starfsmenn skólans. Það er ljótur leikur að draga heilindi þessara stafsmanna í efa með þeim hætti sem gert var í téðri grein.

 

Ég vona að þessi ummæli prófessors Þórólfs hafi runnið úr penna hans án yfirvegunar í hita leiksins. Sé svo væri það skynsamlegri umræðu í samfélaginu og Háskólanum til framdráttar að hann drægi þau til baka og bæði viðkomandi afsökunar.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×