Skoðun

Hrós úr óvæntri átt

Helgi Áss Grétarsson skrifar
Hinn 15. febrúar sl. birtist hér í blaðinu grein eftir hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands sem kunnur er fyrir annað en að tala hlýlega um íslenska aflamarkskerfið í sjávarútvegi. Það vakti athygli mína að hann sagði m.a. eftirfarandi: „…að fátt bendi til annars en að hreinn hagnaður veiða og vinnslu verði áfram mældur í milljarðatugum næsta áratuginn eða svo“.

Ánægjulegt er hversu prófessorinn er bjartsýnn fyrir hönd íslensks sjávarútvegs en örðugt er að vita á hvaða grundvelli þessi spádómur er reistur. Byggir hann á því að aflamarkskerfið verði áfram í lítt breyttri mynd eða að stjórnvöld taki til sín ákveðið hlutfall aflaheimilda á hverju ári og selji hæstbjóðanda? Sé ályktun hans reist á síðari leiðinni væri athyglisvert að fá útlistað hvar í heiminum allar aflaheimildir séu seldar á uppboði og hvaða árangri slíkar uppboðsleiðir hafi skilað við stjórn fiskveiða.

Í þessu samhengi er ekki úr vegi að rifja upp stöðu íslensks sjávarútvegs fyrir daga aflamarkskerfis með einstaklingsbundnum og framseljanlegum aflaheimildum en það kerfi kom til framkvæmda 1. janúar 1991. Fyrir daga kerfisins var ógjarnan veitt verulega umfram ráðgjöf fiskifræðinga og sjávarútvegurinn var oft rekinn með halla (á síðara atriðið er t.d. bent í skýrslu svokallaðrar endurskoðunarnefndar frá árinu 2001, bls. 21).

Jafnframt blés ekki byrlega fyrir íslenskan sjávarútveg á fyrstu árum tíunda áratugar síðustu aldar. Sem dæmi var í ársbyrjun 1992 talið að fiskvinnslan hefði búið yfir 8% halla en útgerð við 2% hagnað, sbr. t.d. Alþingistíðindi 1993-1994, A-deild, bls. 1595. Samkvæmt sömu heimild var áætlað að heildarskuldir sjávarútvegsins næmu 95 milljörðum króna.

Þegar litið er til þessarar upprifjunar má segja að það hafi vissa kosti að skapa engan arð af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar því þá þarf ekki að deila um skiptingu hans.

Sé markmiðið hins vegar að skapa þjóðhagslegan arð með skipulagi fiskveiða í atvinnuskyni þarf að skapa umgjörð sem stuðlar að slíku. Ein leið við að ná þessu markmiði er að skilgreina aflaheimildir einstakra atvinnurekenda með skýrum hætti og gera þær framseljanlegar. Reynslan af þessu fyrirkomulagi á Íslandi bendir til þess að hagkvæmni í sjávarútvegi hafi aukist og er það í reynd viðurkennt í fyrrnefndri blaðagrein hagfræðiprófessorsins.

Telja verður það hrós úr óvæntri átt.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×