Skoðun

Ég hef verið gagnrýnd

Vilborg Oddsdóttir skrifar
Fyrir 20 árum var örkreppa á Íslandi og Hjálparstarf kirkjunnar fór að deila út matarpokum. Strax var tekin sú skynsamlega ákvörðun að setjast niður með hverjum og einum, fara í gegnum hans mál og skrá helstu staðreyndir. Var þar lagður grunnur að mikilvægu talsmannshlutverki Hjálparstarfs kirkjunnar sem æ síðan hefur byggst á staðreyndum, áreiðanlegum upplýsingum um fátækt en ekki tilfinningu.

Stjórnvöld farin að hlusta – aðgerða óskaðFyrir um 8 árum var félagsráðgjafi ráðinn til Hjálparstarfsins. Á þeim tíma deildu tvö hjálparsamtök út matarpokum, Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur á höfuðborgarsvæðinu og Hjálparstarfið sem sinnti öllu landinu. Stjórnmálamenn skutu á samtökin og muna allir orð Davíðs Oddssonar um að Íslendingar hefðu alltaf verið tilbúnir að elta það sem er ókeypis. Þau orð endurspegla áralanga afstöðu stjórnvalda að vilja ekki ræða vandann. Nú hefur bágstöddum fjölgað til muna. Ekki er hægt að skella skollaeyrum við. Hjálparsamtökin eru orðin þrenn. Enn bólar ekki á lausnum frá stjórnvöldum þótt vissulega séu þau farin að hlusta.

Ráðgjöf, fjölbreytt og einstaklingsbundin aðstoðÉg hef verið gagnrýnd fyrir að segja að margir þurfi aðra aðstoð en að fá matarpoka – þótt enginn lifi án matar. Þess vegna leggur Hjálparstarf kirkjunnar, eitt góðgerðarfélaga ef þessu tagi, mikla áherslu á faglega ráðgjöf og fleiri úrræði en mat. Þau fela í sér hjálp vegna skólagöngu og tómstunda barna og ungmenna, styrki fyrir lyfjum og lækniskostnaði, fatnað og fleira. Um þetta má lesa í ársskýrslu á www.help.is, undir liðnum Um starfið. Aðstoð okkar er sveigjanleg og sniðin að þörfum hvers og eins.

Inneignarkort í stað matarpoka – nauðsynlegt samstarfNú 1. maí hófst ný tegund mataraðstoðar, inneignarkort í stað matarpoka. Um leið var ákveðið að Hjálparstarf kirkjunnar myndi aðeins aðstoða barnafólk með mat en vísa öðrum til hinna hjálparsamtakanna, þar sem þau starfa. Séu engin slík, veitum við öllum aðstoð. Þetta er gert vegna þess að inneignarkortin eru dýrari leið og vegna þess að rannsóknir sýna að barnafjölskyldur hafa það verst í kreppu. Um leið ýtum við við áragamalli ósk okkar til hinna samtakanna um að við vinnum saman, skiptum með okkur umsækjendahópnum. Þannig komum við í veg fyrir að sumir fari á marga staði eftir aðstoð. Þannig getum við sniðið aðstoðina hver að sínum hópi. Allir sem sækja um aðstoð hjá okkur þurfa að koma með gögn um tekjur og útgjöld. Það sem er afgangs ræður því hvort viðkomandi fái aðstoð. Þannig fá aðeins þeir verst settu hjálp. Við veitum neyðaraðstoð en ekki viðbót við framfærslu.

Fjármálaráðgjöf hefur bæst við hjá okkur. Strax bókaðist í hana. Skjólstæðingum okkar gefst nú líka nýr kostur – einstaklings- og fjölskylduráðgjöf. Tilboðin byggja á þúsundum viðtala sem ég hef tekið um þörfina. Tekið skal fram að öll önnur aðstoð okkar en mataraðstoð er ætluð öllum, bæði barnafólk og öðrum, hvar sem er á landinu.

Hvað veist þú í alvöru um fátækt á Íslandi? Fylgstu með sjónvarpsþættinumHjálparstarfið hefur gerst aðili að Evrópusamtökum gegn fátækt og félagslegri einangrun. Við væntum samstarfs og frjórra hugmyndaskipta um þennan alheimsvanda. Hér á landi hefur vantað góða og upplýsta umræðu meðal almennings og ráðamanna. Fimmtudagskvöldið 26. maí verður, í opinni dagskrá, þáttur á Stöð 2 með viðtölum við þá sem búa við fátækt á Íslandi og fræðimenn um vandann. Ég skora á þig að fylgjast með. Við verðum að vita hvernig ástandið er.

Svo verðum við að bregðast við – þú og ég, íslenskir samborgarar.




Skoðun

Sjá meira


×