Skoðun

Stjórnsýslan þarf reglufestu

Helga Jónsdóttir skrifar
p { margin-bottom: 0.08in; }

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um mannauðsmál ríkisins koma fram sláandi upplýsingar um að einungis ríflega 50 prósent stjórnenda í opinberum stofnunum nýta sér þau tæki til mannauðsstjórnunar sem þeir hafa yfir að ráða. Í staðinn fyrir að einblína á vandann, sem liggur hjá stjórnendum, er einblínt á opinbera starfsmenn og þess krafist að ferlið til að segja þeim upp verði einfaldað.

Ein af ályktunum starfshóps forsætisráðherra um viðbrögð stjórnsýslunnar við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis er sú að nokkuð skorti á frammistöðumat fyrir stjórnendur í opinbera geiranum. Það er miður að þeir sömu stjórnendur noti ekki slík mannauðsstjórnunartæki.

Það er hins vegar reginfirra að lausnin sé sú að veita stjórendum færi á að reka og ráða fólk eins og þeir vilja. Skýrsla þingmannanefndar Alþingis, sem mat rannsóknarskýrsluna, segir að brýnt sé að „formleg og vönduð stjórnsýsla sé sérstaklega mikilvæg, einkum í ljósi smæðar samfélagsins." Hér er kallað eftir formfestu. Það er einnig gert í fyrrnefndri skýrslu starfshóps forsætisráðherra; „að bæta samhæfingu og reglufestu í stjórnsýslunni."

Samband starfsmanns og stjórnanda er ferli sem hefst við ráðningu og lýkur við starfslok. Í því ferli getur ýmislegt komið upp á, en góður stjórnandi fylgist með starfsmanni sínum og metur frammistöðu hans reglulega. Þannig eykur hann líkurnar á því að starfsmaðurinn standi sig vel í starfi.

Allt of oft ber á því í umræðunni að fólki sé skipt upp í hópa. Það erum „við" og „þið" og í mestu öfgunum fara hagsmunir þessara hópa ekki saman. Opinber stjórnsýsla er okkar allra. Hún er tækið sem við höfum til að reka samfélagið. Um það tæki verða að gilda skýrar reglur og gagnsæjar, ráða verður faglega í stöður og nýta þarf starfsmannamat.

Hvað opinbera stjórnsýslu varðar er ekkert sem heitir „við" og „þið". Fólkið í henni er af heilindum að vinna að betri umgjörð um lýðræðislegt stjórnkerfi þjóðarinnar. Það er okkar allra hagur að það standi sig vel og formfesta eykur líkurnar á því. Að afnema hana eru kolröng viðbrögð við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um það sem leiddi þjóðina í þær ógöngur sem hún er í.






Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×