Skoðun

Fögnum með framhaldsskólanemum

Andri Steinn Hilmarsson skrifar
Ekki láta þér bregða rekist þú á hóp námsmanna hlaupandi um stræti borgarinnar brosandi út að eyrum. Í dag fögnum við nefnilega alþjóðlegum degi námsmanna.

Í áraraðir hefur 17. nóvember verið haldinn hátíðlegur en uppruna dagsins má rekja aftur til ársins 1939, þegar Þjóðverjar réðust inn í Tékkóslóvakíu. Meðal þeirra sem börðust gegn hersetu þjóðverja voru námsmenn. Á þjóðhátíðardegi Tékkóslóvakíu flykktust námsmenn út á götur Prag og mótmæltu, en mættu harkalegum viðbrögðum. Jan Opletal, leiðtogi námsmanna, særðist illa í þessum mótmælum en lést stuttu síðar af sárum sínum. Mörg þúsund landsmenn fylgdu honum til grafar og í kjölfarið var efnt til annara mótmæla þann 17. nóvember. Þann dag voru 9 mótmælendur teknir af lífi og aðrir 1200 sendir í útrýmingarbúðir nasista og skólum landsins lokað. Þremur árum síðar var 17.nóvember viðurkenndur sem alþjóðlegur dagur námsmanna.

Samband íslenskra framhaldsskólanema (SÍF) hefur frá árinu 2007 staðið vörð um áunnin réttindi framhaldsskólanema á íslandi og barist fyrir bættum kjörum. Áður höfðu félög á borð við Iðnnemasamband Íslands, Hagsmunaráð íslenskra framhaldsskólanema, og Félag framhaldsskólanema sinnt hagsmunagæslu og byggt þær stoðir er SÍF byggir nú á. Í dag eiga allir framhaldsskólar á Íslandi aðild að félaginu og eiga framhaldsskólanemar nú í fyrsta sinn sameiginlegann málsvara sem haldið getur uppi þeirra vörnum.

Við erum að upplifa undarlega tíma, mikill niðurskurður hefur orðið í þjóðfélaginu og framhaldsskólanemar þurfa að lifa í stöðugum ótta við það, að í næsta skipti er niðurskurðarhnífurinn er hafinn á loft, gangi hann okkur of nærri. Forræðishyggja skólayfirvalda hefur náð nýjum hæðum og fá framhaldsskólanemar varla að draga andann án samþykkis yfirvalda.

Svo þegar að þú mætir framhaldsskólanema á morgun, þá ættir þú að stöðva hann, og spyrja hann, svona til tilbreytingar, hvað honum finnist. Því þegar uppi er staðið, eru þetta hagsmunir okkra allra, og skoðanir okkar eiga alltaf rétt á sér.




Skoðun

Sjá meira


×