Viðskipti innlent

Hannes sýknaður af 400 milljóna kröfu Glitnis

Hannes Smárason var sýknaður af 400 milljóna kr. kröfu skilanefndar Glitnis fyrir héraðsdómi í dag og þarf ekki að greiða hana að svo stöddu. Hinsvegar voru FI fjárfestingar, sem áður hétu Primus og er í eigu Hannesar, dæmdar til að greiða Glitni rúmlega 4,6 milljarða kr.

Þegar aðalmeðferð málsins stóð yfir í síðasta mánuði sakaði lögmaður Hannesar skilanefndina um óeðlilega aðför að skjólstæðingi sínum. Lögmaður Glitnis svaraði því aftur á móti að lögsóknin væri lögleg og ekki byggð á neinu samsæri.

Krafan upp á 400 milljónir kr. sem Hannes var sýknaður af var með sjálfskuldarábyrgð hans. Um var að ræða tvö kúlulán upp á 3,5 milljarða en inn í því er sjálfskuldarábyrgð Hannesar auk veðs í húseignum og lóðum, meðal annars á Þingvöllum. Þá voru einnig hlutabréf í FL Group og Byr lögð fram sem tryggingar á sínum tíma. Þess þarf varla að geta að þau bréf eru með öllu verðlaus í dag.

Heildarskuldarstaða FI Fjárfestinga og félaga þar innanborðs gagnvart Glitni, reyndust í það heila nema rúmum tíu milljörðum króna. Glitnir krafðist 4,7 milljarða af FI fjárfestingum.

Málskostnaður Hannesar fellur niður en FI fjárfestingar þurfa að greiða Glitni rúmlega milljón í málskostnað.


Tengdar fréttir

Segir skilanefnd Glitnis ofsækja Hannes

„Þessi lögsókn er ekki byggð á neinu samsæri og upphaf ræðu Gísla [Guðna Hall hrl.] er óskiljanlegt," svaraði lögmaður Glitnis, Sigurbjörn Ársæll Þorbergsson, eftir að verjandi Hannesar Smárasonar, og félaga honum tengdum, hafði sakað skilanefnd Glitnis um óeðlilega aðför að skjólstæðingi sínu og allt að því ofsóknarkennda. Hóf hann ræðu sína á því að rifja upp málsókn skilanefndar Glitnis gegn Hannesi, Jóni Ásgeiri Jóhannessyn og fleirum í New York, þar sem málinu var vísað frá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×