Skoðun

Skaðræðisríkisstjórn

Halldór Úlfarsson skrifar

Þingmenn Vinstri grænna og Samfylkingar sitja í skaðræðisríkisstjórn sem er að kosta þjóðina meira böl en útrásarvíkingarnir gerðu. Þessi ríkisstjórn er versti óvinur heimila landsins og eru þau í mínum huga ekkert annað en föðurlandssvikarar. Þau komust til valda algjörlega á fölskum forsendum. „Hvers á ég að gjalda?" sagði Steingrímur þegar hann var spurður um leiðréttingu lána heimilanna, „ég á mitt hús skuldlaust." Steingrímur þarf að skilja að það urðu hamfarir í landinu og hvers á fólkið að gjalda sem er með lán frá Íbúðalánasjóði sem hafa hækkað um 30% á tveim árum? Hvað með leiðréttingu upp á 15-20%?

VG og Samfylkingin hafa algjörlega brugðist venjulegu fjölskyldufólki og þó var SKJALDBORGIN þeirra helsta kosningaloforð. Réttlætiskennd minni er stórlega misboðið. Grundvallaratriði í stjórnmálum ætti að vera að standa við gefin loforð, að ég tali ekki um þegar fólk kemst til valda á einu loforði, sem það síðan svíkur alveg í tætlur.

Ef að Íslendingar eiga að lifa í sátt þá eigum við ekki að þurfa að hlusta á bullið í ráðherrum þessarar ríkisstjórnar. Við hrunið töpuðu lífeyrissjóðirnir 600-800 milljörðum. Þjóðin kaus um Icesave og hagnaðist um 400-500 milljarða. Landsbankinn var að vinna mál og hagnaðist um 200 milljarða. Það er talið að 3000 manns hafi átt 1000-1500 milljarða inni á bókum í bönkunum fyrir hrunið. Í dag á þetta sama fólk 1500-2000 milljarða. Svo biður almenningur um leiðréttingu lána upp á 10-20% og allt ætlar um koll að keyra þótt það myndi kannski kosta um 100 milljarða. Kannski kostar það 0 krónur ef allt er talið.

Hvers vegna ætli þjóðin hafi svona litla trú á Alþingi og sitjandi ríkisstjórn? Það skyldi þó ekki vera vegna þess að VG og Samfylkingin höfðu eitt kosningaloforð sem þau sviku. Það átti að vera algert forgangsmál, þegar þau tóku við völdum, fyrir tveimur árum, að fara í aðgerðir fyrir heimilin í landinu. Ef ríkisstjórnin hefði staðið við þetta eina kosningaloforð, hefði hún getað stjórnað hér á Íslandi næstu árin. Því miður fyrir ykkur VG og Samfylking, þið verðið að yfirgefa svæðið strax. Því fyrr því betra. Við þurfum jákvæða strauma fyrir 2011.






Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×