Innlent

Síld á fjörum segull á tugþúsundir fugla

Máfur er mikilvægt æti fyrir haförn svo máfager í síldaráti á Breiðafirði er eitthvað sem þessi tignarlegi fugl stenst ekki.fréttablaðið/óskar
Máfur er mikilvægt æti fyrir haförn svo máfager í síldaráti á Breiðafirði er eitthvað sem þessi tignarlegi fugl stenst ekki.fréttablaðið/óskar
Dauð og deyjandi síld á fjörum í Breiðafirði dregur að sér þúsundir fugla. Fjörutíu hafernir sáust við Jónsnes. Rotnandi síld gefur frá sér grút og óþef í þíðunni. Veiði og síldarsýkingu kennt um. Hafró fer til rannsókna í janúar.

„Þarna voru þúsundir máva, sennilega um hundrað hrafnar en tilkomumest var að sjá samankomna fjörutíu haferni," segir Jóhann Kjartansson, einn eigenda jarðarinnar Jónsness á Snæfellsnesi. „Það var töluvert af dauðri og deyjandi síld á svæðinu, hvað sem því veldur."

Eins og kunnugt er hefur meirihluti stofns íslensku sumargotssíldarinnar haldið sig inni á Breiðafirði undanfarin ár. Þangað hefur flotinn sótt til veiða, og hefur vel gengið að taka þann kvóta sem gefinn hefur verið út eftir að sýking kom upp í stofninum. Voru veiðarnar í ár einskorðaðar við Breiðafjörð, en sýking hefur mælst minni í síld sem veiðst hefur utan þess svæðis.

Því eru tvær kenningar uppi um hvað veldur því að töluvert magn af dauðri síld rotnar nú á fjörum og á botni fjarðarins. Annars vegar að sjómenn hafi gengið of skart fram við veiðar í haust en hins vegar að síldarsýkingunni sé um að kenna. Sýkingin í stofninum er um 30 prósent og því ljóst að mikið magn drepst vegna hennar, og því líklega meginástæðan.

Hjá Náttúrustofu Vesturlands var það að fregna að fjöldi sjómanna hafi haft samband sem segja að mikið magn liggi dautt á botni fjarðarins og rotnandi síld sé um allar fjörur.

Lárus Hallfreðsson, bóndi í Ögri stutt frá Stykkishólmi, tekur undir þetta en hann fór í Sellónseyjar á föstudaginn. „Það er mikið magn af síld sem er að rotna í fjörunum. Þetta er hábölvað núna og versnar þegar líður á. Í logni sér maður gasbólur koma upp á yfirborðið eins og sjórinn sjóði. Það hlýtur mikið að vera að rotna á hafsbotni." Lárus segir jafnframt að þari á fjörum sé þakinn grút og lyktin sé mikil og ógeðfelld. „Mér finnst líklegt að sýking sé skýring að hluta en ekki síður veiðar stóru skipanna sem voru hérna uppi í fjöru við síldarveiðar."

Hafrannsóknastofnunin hyggst fara til rannsókna á Breiðafirði í janúar en Fiskistofa hefur þegar hafið vinnu við að taka sýni fyrir stofnunina til rannsókna.

Jóhann, sem var á Jónsnesi á laugardag, segist oft hafa séð tvo og þrjá haferni í einu á þessu svæði en þetta hafi verið einstakt. „Í raun má segja að ótrúlega stórt hlutfall af stofninum hafi verið þarna á litlum bletti," segir Jóhann en stofn hafarnar á Íslandi er talinn vera 65 pör. „Það svíður mest að hafa ekki verið með myndavél, því maður verður ekki vitni að þessu aftur."

svavar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×