Erlent

Beinast gegn leyniþjónustunni

Tveir sjálfsvígsárásarmenn óku bifreiðum hlöðnum sprengiefnum að höfuðstöðvum lögreglu og leyniþjónustu í Damaskus.nordicphotos/AFP
Tveir sjálfsvígsárásarmenn óku bifreiðum hlöðnum sprengiefnum að höfuðstöðvum lögreglu og leyniþjónustu í Damaskus.nordicphotos/AFP
Tugir manna fórust í tveimur sjálfsvígsárásum í Damaskus, höfuðborg Sýrlands. Árásirnar beindust að höfuð stöðvum lögreglu og leyniþjónustu í borginni. Yfir hundrað manns eru særðir.

Stjórnvöld líta á þetta sem staðfestingu þess að mótmæli og óeirðir undanfarna mánuði séu runnin undan rifjum hryðjuverkasamtaka. „Við sögðum það frá upphafi, þetta eru hryðjuverk. Þeir eru að drepa hermenn og almenna borgara,“ sagði Faysal Mekdad aðstoðarutanríkisráðherra.

Daginn áður hafði Arababandalagið sent undirbúningsnefnd til landsins, til undirbúnings fyrir eftirlit bandalagsins með átökum, óeirðum og viðbrögðum stjórnvalda, sem kostað hafa þúsundir manna lífið undanfarna mánuði.

Einhverjir stjórnarandstæðingar halda því fram að árásirnar hafi verið sviðsettar af stjórnvöldum til að hafa áhrif á sendinefnd Arababandalagsins.

Stjórnvöld víða um heim hafa fordæmt viðbrögð sýrlenskra stjórnvalda við mótmælabylgjunni, sem hófst fyrir níu mánuðum. Sameinuðu þjóðirnar segja að harkaleg viðbrögð stjórnvalda hafi kostað meira en fimm þúsund manns lífið.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×