Skoðun

Homo sapiens

Valgarður Egilsson skrifar

Niðurstöður frá atferlis- og umhverfismati vegna tegundarinnar homo sapiens gætu verið þessar:

a) Maðurinn er óvitrari tegund en hann heldur sjálfur – en jafnframt meir sjarmerandi en hann áttar sig á. Með svo lítið vit – þá þarf að fara vel með það. Það þarf að nota sem best, ekki bæla það eða láta blekkjast.

b) Maðurinn lifir á mörkum (lífvænlegra skilyrða ) – dýrin sömuleiðis á útmörkum lífvænlegra skilyrða. Það er í samræmi við lögmál Darwins. Fleiri afkomendur eru bornir í heiminn en hægt er að næra ; því eru allir kimar nýttir, allar matarholur, að þeim mörkum að sumir rétt skrimta, en einhverjir falla; það óttast margir. Þeir geta fallið af öðrum ástæðum en fæðuskorti, í átökum, af völdum sjúkdóma, slysa o.s.frv. Fæðuöflun er mikilvægust í augum dýra – og manna  reyndar. Hver vera lifir við kennd nokkurs óöryggis alla ævi. Er stöðugt á verði.

c) Kennd óöryggis stýrir mjög mörgum gjörðum mannsins. Af greinum a, b og c  leiðir d: að maðurinn er auðginntur, lætur ginnast, tekur boði um gull og græna skóga fegins hendi. Og gagnrýnislaust. Hann véfengir ekki.

d) Það er ekki til svo hrikaleg hugmynd að ekki megi selja hana fólkinu með áróðri og kænsku, dæmin eru næg úr sögu mannanna. Nefndar skulu hrikalegar hugmyndir frá Rúanda eða nazisminn eða grimmdaræði víkinganna eða styrjöld í Súdan eða þegar hvítir menn komu fyrst til N-Ameríku eða Tasmaníu.

Hugmyndin um erfðasyndina var markaðsett með sérstakri snilld, og í kaupbæti var himnaríki. Seldist vel. Erfðasyndin er hryllileg hugmynd. Líklega orðin til sem valdatæki, vopn. Selst vel. e) Maðurinn er nokkuð langt frá fullkominleikanum. Hann er ekki syndugur fyrir að vera það.

 




Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×