Skoðun

Hvers vegna má ég ekki ganga í sérskóla?

Ásta Kristrún Ólafsdóttir skrifar

Athugasemdir við rök sérskólaandstæðinga: Hvers vegna má ég ekki ganga í sérskóla sem er sérsniðinn fyrir þroskahömluð börn eins og mig?

1. „Vegna þess að í sérskóla einangrast þú frá almennu samfélagi.“

Hvernig þá? Er það ekki frekar einangrun að vera alltaf ein og öðruvísi í almenna skólanum?

2. „Þú átt að vera í almennum skóla vegna þess að þar eru góðar fyrirmyndir.“

Er þá eitthvað að því að vera eins og ég er? Geta þau kennt mér að vera ekki þroskaheft? Get ég þá af-fatlast?

3. „Þú átt að vera í almennum skóla því krakkarnir þar eiga að venjast þér og læra umburðarlyndi gagnvart þroskaheftum.“

Þarf ÉG endilega að kenna þeim það? Og hvernig á ég að kenna þeim það – bara með því að vera þarna og vera öðruvísi? Ef þau venjast mér hætta þau þá að taka eftir því hvað ég tala óskýrt, og segi sama hlutinn aftur og aftur, að ég skil ekki það sem þau segja og ég veifa með handleggjunum og hef hátt? Vilja þau þá vera vinir mínir? Hvað ef þau venjast mér ekki en verða bara pirruð og þreytt á mér?

4. „Krakkarnir eiga að láta þér finnast þú vera fullgildur þátttakandi í skólasamfélaginu á eigin forsendum.“

Hvernig get ég verið fullgildur félagi þegar ég get ekki gert það sama og aðrir og get aldrei orðið eins og aðrir? Er ég þá ekki bara einhvers konar heiðursfélagi?

5. „Við kunnum ráð við því. Við látum bara eins og þú sért eins og aðrir. Við getum til dæmis tekið bókarkápuna af bókinni sem hinir krakkarnir eru að lesa og sett hana utan um smábarnabókina þína. Þá halda allir að þú sért eins og hinir.“

Já, en það er lygi. Verð ég þá að leyna því hver ég er? Vá, hvað ég hlýt að vera ömurleg! Ég vil frekar vera þar sem ég þarf ekki að skammast mín fyrir hver ég er en að vera meðtekin á upplognum forsendum.

6. „Kannski kynnist þú krökkum í hverfinu og getur verið með þeim úti að leika og þú getur farið í íþrótta- og félagsstarf í hverfinu.“

Er það? En ef ég fer út að leika með krökkunum í hverfinu, hver á þá að passa mig? Og hvaða hlutverk fæ ég í leiknum ef ég get ekki lært leikreglurnar? Má ég ekki æfa með Öspinni? Er kannski kúlara að æfa með KR?

7. „Ef þú ert í almennum skóla verður þú virkari þátttakandi í hinu almenna samfélagi.“

Fer það ekki eftir fötlun minni hversu virk ég get orðið í sam­félaginu? Ég hef áhuga á þátttöku í samfélagi þroskaheftra. Útilokar það mig þá frá hinu svokallaða almenna samfélagi? Eru ekki allir í mörgum samfélögum?

8. „Ófatlaðir krakkar geta verið svo mikil hvatning fyrir þig.“

Þegar ég sé hvað aðrir geta, get ég þá gert það sama? Er þá þroskahömlun kannski bara leti?

9. „Þú átt að vera í almennum skóla af því þú átt rétt á því!“

Verður maður að gera það sem maður hefur rétt á að gera? Mig langar að vera í skóla með krökkum sem eru eins og ég. Hef ég ekki rétt á því?

10. „Samfélagið verður litríkara og flottara ef allir eru saman.“

Mér er nú eiginlega slétt sama hvað lítur vel út, ég vil bara vera með vinum mínum og jafningjum þar sem ég get blómstrað eins og ég er.

11. „Þú átt að vera í almennum skóla til að stuðla að endurmenntun kennara og endurbótum skólakerfisins þannig að það verði fært um að sinna þörfum þroskaheftra barna.“

Vá! Og hvernig geri ég það? Bara með því að vera þarna og láta mér líða illa?

12. „Þú færð þetta verkefni vegna þess að grunnskólinn gerir ekki neitt almennilegt fyrir þig nema sérskólinn neiti að taka við þér og skólinn er sterkasta aflið til að sigrast á fordómum.“

Getur skólinn kannski beitt sér fyrir því að uppræta fordóma án þess að ég þurfi að vera á staðnum? Ég er ekki pólitískt verkfæri, ég er barn.

 




Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×