Viðskipti innlent

Gylfi Zoëga: Seðlabankanum mistókst að viðhalda stöðugleika

Hafsteinn Hauksson skrifar

Nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans segir að bankanum hafi mistekist að viðhalda stöðugleika fjármálakerfisins. Hann bætist í hóp þeirra sem kalla eftir umfangsmiklum breytingum á peningamálastefnu landsins.

Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands og nefndarmaður í peningastefnunefnd Seðlabankans, ritar grein í nýjasta hefti Tímarits um viðskipti og efnahagsmál undir fyrirsögninni Hugleiðingar um peningamálastefnu.

Í greininni fullyrðir Gylfi að Seðlabankanum hafi mistekist að viðhalda stöðugleika fjármálakerfisins. Hann segir að bankinn hafi hækkað vexti til að slá á eftirspurn í góðærinu, en þá hafi bæði heimili og fyrirtæki notfært sér vaxtamuninn sem skapaðist milli Íslands og helstu viðskiptalanda til þess að hagnast án þess að taka nægilegt tillit til væntanlegrar gengislækkunar krónunnar.

Afleiðingar þess hafi verið að vextir Seðlabankans hafi ekki haft tilætluð áhrif til að slá á þenslu í hagkerfinu og bankarnir hafi blásið út.

Gylfi leggur til víðtækar breytingar til að bregðast við vandanum í framtíðinni, en Seðlabankinn hefur sjálfur kallað eftir fleiri stjórntækjum en aðeins stýrivöxtum.

Meðal þess sem Gylfi leggur til er að húsnæðislánakerfið verði endurskipulagt þannig að vextir Seðlabankans hafi bein áhrif á vexti húsnæðislána. Þá vill hann koma í veg fyrir að heimili og fyrirtæki með tekjur í krónum geti tekið gengistengd lán, og þannig vikið sér undan vaxtastigi Seðlabankans.

Hann kallar eftir breytingum á skattkerfinu svo það umbuni þeim einstaklingum og fyrirtækjum sem greiða niður skuldir, en skattleggi þá sem auka skuldir. Einnig vill hann setja vexti bankakerfisins hömlur með breytingum á reglum um eiginfjárhlutfall, aðskilja viðskiptabanka og fjárfestingabanka og banna fjármálastofnunum að taka stöðu gegn viðskiptavinum sínum.

Grein Gylfa má finna í heild sinni hér.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×