Skoðun

Svar við svari Oddnýjar G. Harðardóttur

Heimir Eyvindarson skrifar
Á dögunum skrifaði ég grein í Fréttablaðið þar sem ég hvatti þingmenn Samfylkingar til að gæta meiri jöfnuðar í aðgerðum til leiðréttingar skuldavanda heimilanna. Oddný G. Harðardóttir, formaður þingflokks Samfylkingarinnar, svaraði skrifum mínum í alllöngu máli, án þess reyndar að ræða mína stöðu sérstaklega, sem var þó megininntak greinar minnar.

Samt sem áður þakka ég Oddnýju svarið en vona um leið að hún sé ekki jafn sannfærð og mér sýnist hún vera um ágæti þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur ráðist í.

Kæra Oddný.

Þakka þér fyrir svarið. Ég skal viðurkenna að þegar ég las það fór það aðeins í taugarnar á mér að þér skyldi detta í hug að ég áttaði mig ekki á muninum á afskriftum gjaldþrota fyrirtækja og leiðréttingum á lánum einstaklinga. Eða að ég gerði mér ekki grein fyrir því að það væri óhjákvæmilegt að almenningur fyndi fyrir afleiðingum hrunsins. En látum það liggja milli hluta.

Þú talar um sanngirni og réttlæti. Það var einmitt inntakið í minni grein. Þar kallaði ég eftir því að jafnaðarmannaflokkur Íslands gætti jöfnuðar í aðgerðum. Aðgerðir ykkar hafa verið sniðnar að þeim sem fóru of geyst. Við hin sem gættum hófs höfum setið eftir. Á það hefur margoft verið bent, af gleggra fólki en mér.

Ég gætti hófs. Keypti mér raðhús og tók lán fyrir 60% kaupverðsins, til 25 ára. Núna skulda ég 109-110% í mínu húsi. Rétt eins og fólkið sem reisti sér hallir á hundrað prósenta lánum skuldar í sínum eignum. Það er hvorki sanngirni né réttlæti í slíkri stöðu. Hvað þá vitglóra. En svona er Ísland í dag, Oddný.

Veruleikinn er einnig sá að þrátt fyrir að eftirlitsnefnd eigi að fylgjast með því að bankarnir geri ekki upp á milli manna eða fyrirtækja við skuldaaðlögun, þá er raunin önnur. Um það vitna fjölmörg dæmi sem ég þykist vita að þú þekkir mæta vel.

Þú mátt ekki skilja orð mín svo að mér finnist allt sem þið takið ykkur fyrir hendur með öllu ómögulegt. Því fer fjarri. En ég er ósáttur við frammistöðu ykkar í þessum efnum.

Ég skil vel að þér sé mjög í mun að sannfæra mig um að ríkisstjórnin standi sig afburðavel við að leiðrétta skuldavanda heimilanna. Ég get hins vegar alveg lofað þér því að það breytir engu um mína stöðu og fjölmargra annarra hversu oft þið segið að þið séuð að gera góða hluti.

Einu fagna ég þó í svari þínu. Það er að þú segir brýnt að bæta strax augljósa galla þeirra úrræða sem gripið hefur verið til. Það væri fróðlegt að vita hvað þú átt við með þessu. Kannski erum við ekki svo ósammála eftir allt saman?




Skoðun

Sjá meira


×