Skoðun

Flóttamenn

Einar Gunnar Birgisson skrifar
Nýleg grein formanns innflytjendaráðs og flóttamannanefndar um flóttamenn er furðuleg smíð og skín þar í gegn barnaleg einfeldni og dómgreindarskortur. Hún segir að hér á Íslandi sé nægjanlegt landrými, vatn og fæða til að flytja inn flóttamenn í stórum stíl og er þá væntanlega að tala um tugþúsundir flóttamanna eða kannski hundruð þúsunda. Þá þarf að byggja nýja bæi og úthverfi og byrja strax. Nú, og hefja stórfellda skattheimtu til að borga brúsann.

Það er nú svo með þessa flóttamenn að þeir eru eins og hafið. Að flytja inn flóttamenn í stórum stíl og ætla sér að bjarga einhverju vandamáli þar með er eins og að ætla sér að ausa burt sjónum með teskeið. Það er sama hve ausið er, það bætast sífellt fleiri flóttamenn við, bæði alvöru flóttamenn og allir þeir sem vilja flýja fátækt og félagslegt óréttlæti. Þeir eru taldir í hundruðum milljóna og líklega miklu meir. Ég legg til að haldið verði þjóðaratkvæði til að athuga hvort draumsýn áðurnefnds formanns á sér hylli meðal þjóðarinnar.

Vandamálin aukast hjá okkur við stórfelldan innflutning flóttafólks en minnka ekkert í löndum fátæktar, stríðs og volæðis. Það er til fólk og samtök sem berjast fyrir því að flutningur fólks til Íslands og annarra Evrópulanda sé algjörlega frjáls. Sumt af þessu fólki virðist líta svo á að þjóðfélög eins og okkar séu gerspillt auðvaldsþjóðfélög og best sé að brjóta þau niður með stórfelldum innflutningi flóttamanna.

Ég legg til að áðurnefndur formaður og aðrir hjálparandar starfi í viðkomandi löndum og flóttamannabúðum og hjálpi fólki á staðnum í stað þess að reyna sitt ítrasta til að íþyngja íslenskum skattborgurum og þjóðfélagi með stórfelldum innflutningi flóttamanna.

Kostnaður þjóðfélagsins við að hjálpa einum flóttamanni er mikill. Þessum peningum er betur varið við að hjálpa konum, börnum og öðrum sem minna mega sín í viðkomandi landi. Fyrir sama pening er kannski hægt að hjálpa hundruðum manna heima hjá sér.




Skoðun

Sjá meira


×