Skoðun

Fjandvinir sjávarútvegs

Sveinn Hjörtur Hjartarson skrifar

Fjandvinir sjávarútvegsins fara mikinn þessa dagana. Nú þegar Hagstofa Íslands hefur gefið út ritið Hagur fiskveiða og fiskvinnslu 2009 klifa þeir á að atvinnugreinin sé rekin með ofurhagnaði og hann beri að skattleggja. Þetta er sama fólkið og fyrir nokkrum misserum klifaði á því að atvinnugreinin væri ofurskuldsett og illa rekin. Þetta eru í flestum tilvikum sömu aðilar og hafa einnig klifað á því að stjórnkerfi fiskveiða, kvótakerfið, sé ómögulegt og því beri að taka aflaheimildirnar af útgerðinni í eitt skipti fyrir öll.

Það er erfitt að fóta sig í þessari umræðu. Hún ber hvorki vott um rök né skynsemi. Yfirbragðið er í anda Morfís-ræðumennsku, sem helgast af því að eiga síðasta orðið, snúa orðræðunni á hvolf ef það hentar.

Samkvæmt samantekt Hagstofu Íslands var afkoma í sjávarútvegi góð á árinu 2009 í sögulegu samhengi. Þrátt fyrir tímabundna lækkun í ársbyrjun 2009 jafnaðist verð á mörkuðum erlendis. Makrílveiðar komu sem óvæntur búhnykkur. Þrátt fyrir að olíuverð sé í sögulegu samhengi hátt lækkaði það á milli ára en hefur nú hækkað aftur. Óvissa í þjóðfélaginu vegna bankahrunsins og hótun stjórnvalda um að brjóta upp stjórnkerfi í fiskveiðum kallaði á mikið aðhald í atvinnugreininni og öll fjárfesting er í lágmarki. Framlegð í rekstrinum fyrir fjármagnskostnað og afskriftir var skv. samantekt Hagstofunnar 31%, sem er um þriðjungi hærri upphæð en langtímameðaltal framlegðar. Hagnaður greinarinnar er 14%.

Samkvæmt svonefndri árgreiðsluaðferð Hagstofunnar er hagnaðurinn metinn 22%. Aðferðin hefur verið notuð um árabil sem ákveðið reiknað viðmið til þess að leggja mat á afkomuna óháð gengissveiflum, sem geta skekkt til muna niðurstöður ársreikninga á milli ára. Í því samhengi má benda á að tap sjávarútvegs nam 90% af tekjum árið 2008. Þetta þarf að hafa í huga þegar samantekt Hagstofunnar er skoðuð.

Gengi krónunnar hefur mikil áhrif á afkomu sjávarútvegsins. Þegar það var hátt, eins og raunin var frá árinu 2003 og fram til ársins 2007, varð sjávarútvegurinn af gríðarlegum tekjum. Nú þegar gengið hefur lækkað hefur það í för með sér betri afkomu útflutningsatvinnuvega, þar sem tekjur í krónum aukast umfram hækkun tilkostnaðar í landinu. Þetta er einföld þumalputtaregla í efnahagsmálum.

Það sem auðlindaskattssinnar víkja sér undan að vekja máls á er að ef tekin verður upp sú gríðarlega skattheimta sem þeir eru að leggja til verður að lækka gengi krónunnar til lengri tíma. Það veikir ekki aðeins möguleika atvinnugreinarinnar á nýfjárfestingum og búnaði heldur leiðir til verri lífskjara fyrir almenning í landinu, hærra verðs á innfluttum vörum og minni kaupmáttar. Ríkissjóður fær sitt í kassann á kostnað sjávarútvegs og almennings í landinu.






Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×