Skoðun

Stjórnlagaþing í boði Alþingis

Gunnar Helgi Kristinsson skrifar
Samkvæmt íslensku stjórnarskránni er bara ein leið til að gera á henni breytingar. Hún er sú að Alþingi samþykki slíkar breytingar tvisvar, með þingkosningum á milli. Í kjölfar búsáhaldabyltingarinnar var gerð tillaga á Alþingi um breytingu á stjórnarskrá sem átti að tryggja aðkomu þjóðkjörins stjórnlagaþings að samningu nýrrar stjórnarskrár. Vegna málþófs í þinginu náðist ekki að samþykkja hana. Afleiðing þess að við búum við óbreytt ákvæði um breytingar á stjórnarskrá er að Alþingi hefur bæði rétt og skyldu til að fjalla efnislega um slíkar breytingar. Það getur valið um ólíkar leiðir til að undirbúa breytingar á stjórnarskrá, en það getur ekki afsalað sér þeirri ábyrgð sem stjórnarskráin leggur því á herðar. Ýmsar leiðir hafa verið farnar til að undirbúa stjórnarskrárbreytingar, þar á meðal skipun stjórnarskrárnefnda. Þótt breytingar hafi verið gerðar á stjórnarskránni í gegnum tíðina hefur þessi leið ekki náð að skila þeirri heildarendurskoðun sem samstaða var um að gera í framhaldi af setningu stjórnarskrárinnar 1944. Með lögum um stjórnlagaþing ákvað Alþingi að leita álits þjóðarinnar um skipun þings sem hefði það hlutverk að semja frumvarp að breyttri stjórnarskrá. Með því var ný og athyglisverð leið farin við samningu á stjórnarskrá, þótt ýmislegt hefði mátt betur fara við undirbúning málsins. Eftir sem áður liggur hin formlega og efnislega ábyrgð á samþykkt nýrrar stjórnarskrár alfarið hjá Alþingi. Það 85,1% kjósenda sem kaus til Alþingis í apríl 2009 var öðrum þræði að kjósa fulltrúa sem bæru ábyrgð á því hlutverki. Nú hefur komið í ljós að framkvæmd kosningarinnar til stjórnlagaþings var ekki í samræmi við lög og kosningin því, samkvæmt dómi Hæstaréttar, ógild. Við þær aðstæður þarf Alþingi að huga að því hvort það vill endurtaka kosninguna eða fara aðrar leiðir við að leita sér ráðgjafar við samningu stjórnarskrárfrumvarps. Á það hefur verið bent að þótt aðfinnslur Hæstaréttar við framkvæmd kosningarinnar séu vissulega alvarlegar bendi ekkert til þess að slök framkvæmd hafi haft áhrif á niðurstöðurnar. Ein af þeim leiðum sem Alþingi getur farið til að bregðast við þeirri stöðu sem upp er komin er að skipa sjálft nýtt stjórnlagaþing. Verkefni þess og formleg staða þyrftu ekki að vera í neinu frábrugðin þeim sem stefnt var að með fyrri lögum um stjórnlagaþing. Meti Alþingi það svo að ólíklegt sé að misbrestir í framkvæmd kosningarinnar til stjórnlagaþings hafi haft áhrif á niðurstöðurnar er því að sjálfsögðu frjálst að fara fram á það við þá einstaklinga sem þar fengu stærsta atkvæðahluti að þeir taki sæti á nýju stjórnlagaþingi.



Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×