Skoðun

Vitni fyrir Hæstarétti

Eggert Briem skrifar
Skyldi einhver almennur kjósandi hafa borið vitni þegar Hæstiréttur tók fyrir kærur vegna framkvæmda kosninga til stjórnlagaþings?

Hvað hefði ég sagt hefði ég borið vitni? Ég hefði kannske byrjað á að segja að ég hefði verið dálítið spenntur áður en ég fór að kjósa með konu minni á þessum hátíðardegi lýðræðisins. Við höfðum búið okkur vel undir kosninguna, líklega betur en fyrir flestar aðrar kosningar, reynt að setja okkur inn í yfirlýsingar sem flestra frambjóðenda og gert lista yfir þá vænlegustu að okkar mati. Listarnir voru ekki alveg eins.

Á kjörstað var allt rólegt, engin biðröð. Ekki varð ég var við að skilrúm milli kjörklefa væru of lág né að neinn reyndi að kíkja á kjörseðil minn þegar ég stakk honum ósamanbrotnum í kjörkassann, enda erfitt að lesa fjögurra stafa tölur með smáu letri úr fjarlægð. Kannske hélt ég líka kjörseðlinum að mér til öryggis.

Ekki tók ég eftir því hvort kjörkassinn væri úr pappa og þannig úr garði gerður að hægt væri að laumast í hann og stela seðlum. Það getur líka verið býsna erfitt að opna suma pappakassa eins og margir kannast sjálfsagt við, varla á færi annarra en þjálfaðra tollvarða.

Ég tók heldur ekki eftir því að kjörseðlarnir væru í númeraröð, hvað þá að einhver gæti skráð númer kjörseðils míns. Í sem stystu máli þá fannst mér framkvæmd kosninganna hafa gengið furðu vel.

Ég varð því leiður þegar ég frétti að Hæstiréttur hefði ógilt kosningarnar, kosningar sem mér fannst sýna styrk lýðræðisins.

Hefði ég borið vitni fyrir Hæstarétti hefði ég kannske spurt í lokin hvort ég mætti spyrja dómarana tveggja spurninga. Sú fyrri hvort þeir hefðu mætt á kjörstað, og ef svo hvort þeir hefðu fundið eitthvað athugavert við framkvæmdina. En kannske hefði ég bara þurft að spyrja einnar spurningar.

 




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×