Innlent

Kennari við Flensborg formlega áminntur

Flensborgarskóli í Hafnarfirði
Flensborgarskóli í Hafnarfirði
Kennari við Flensborgarskólann í Hafnarfirði hefur verið formlega áminntur af skólanum vegna skrifa sinna á bloggsíðu um níumenningamálið svokallaða. Þá var bréf sent til að allra foreldra barna við skólann þar sem ummæli kennarans voru fordæmd.

Ummæli kennarans Baldurs Hermannssonar voru fjarlægð af bloggsíðu hans af vefstjóra. Í færslunni, sem fjallaði um níumenningamálið var meðal annars stungið upp á því að sakborningarnir yrðu settir í gapastokk eða búr. Orðrétt skrifaði kennarinn: „Og sýna kellingunum kynferðislega áreitni. Ekki má gleyma því."

Snorri Páll Jónsson, einn níumenninganna og fyrrverandi nemi við Flensborgarskólann, vakti athygli á málinu í Fjarðarpóstinum. Hann sagði skrif kennarans lýsa viðurstyggilegu viðhorfi til kynbundins ofbeldis. Skólinn svaraði með yfirlýsingu í gær þar sem skrif Snorra Páls voru hörmuð.

Í yfirlýsingu á heimasíðu Flensborgarskólans í dag kemur hins vegar fram að vegna mikilla viðbragða hafi skólameistari sent bréf til foreldra þar sem ummælin eru fordæmd. Kennarinn hafi verið formlega áminntur vegna málsins. Í yfirlýsingunni segir jafnramt að skoðanir kennarans endurspegli ekki viðhorf Flensborgarskólans. Þá óskar skólinn eftir friði til að rannsaka málið frekar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×