Erlent

Bora niður að vatni sem hefur verið einangrað í fimmtán milljónir ára

Vostok stöðin.
Vostok stöðin.

Rússneskir vísindamenn eiga aðeins eftir að bora 50 metra niður í tæplega fjögurra kílómetra ísbreiðu á kaldasta stað veraldar á Suðurskautinu. Undir því er riastórt stöðuvatn sem hefur verið einangrað í fimmtán milljónir ára.

Vísindamennirnir hafa reynt að bora niður að vatninu undir Vostok rannsóknarstöðinni í þrettán ár án árangurs. Vatnið er á tæplega fjögurra kílómetra dýpi og ísinn verður gríðarlega illviðráðanlegur á þriggja kílómetra dýpi. Þar fyrir utan eru aðstæður þær öfgakenndustu sem finna má á jörðinni. Kuldamet var sett á Vostok-stöðinni árið 1983. Þá mældist kuldinn 89 gráður í mínus.

Vatnið er um 800 metra djúpt og tíu þúsund ferkílómetrar að stærð.

Vísindamennirnr keppa við tímann því þeir verða að yfirgefa stöðina þar næstu helgi vegna veðurs. En borunin gengur hægt, þeir ná aðeins að bora 1,6 metra á dag.

En það er eftir miklu að slægjast því talið er öruggt að líf megi finna í vatninu enda einangrað í fimmtán milljónir ára. Þá er borunin ekki hættulaus, óttast er að fornir sýklar leynist í vatninu og leysist úr læðingi við borunina með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Rússnesku vísindamennirnir telja litlar líkur á því, ólíkt mörgum starfsbræðrum sínum, og því hættunnar virði að bora niður að vatninu að þeirra mati. Unnið er allan sólarhringinn til þess að komast að vatninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×