Skoðun

Fjósverkin

Sverrir Hermannsson skrifar

Í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins, 16. þ.m., ritar fyrrum ritstjóri blaðsins, Styrmir Gunnarsson, grein og minnir á að ekki dugi fjósamanni að moka flórinn til hálfs og berja sér svo á brjóst. Er hann þar að tala um fjósamennina, sem tóku að sér fjósverkin eftir Hrun.

Ritari þessa greinarkorns kom þar á bæ fyrir fjörutíu árum að flórinn í fjósinu hafði verið mokaður til hálfs og mykjunni mokað yfir í hinn endann. Þar stóð kálfur í klyftir í mykju.

Hvað ætli mykjan nái hátt á Halldóri Ásgrímssyni í ómokaðasta flór Hrunverja? Er Finnur Ingólfsson kannski alveg á kafi?

Ráðslag Landsbankamanna er nú mjög í umræðunni, sem vonlegt er. Var ekki í fréttum nýlega, að eignarlausu félagi á Höfn í Hornafirði, Mónu að nafni, í eigu H. Ásgrímssonar hefði Landsbankinn lánað 5 - fimm - milljarða króna, kr. 5.000.000.000.00 - án veða og væri bankinn þessvegna búinn að afskrifa tæpa 3 - þrjá - milljarða?

Hvað er Landsbankinn búinn að afskrifa marga milljarða vegna Stöðvar 2, sem neitað hafði verið um viðskipti í bankanum áður en við yfirstjórn þar tóku Hrunverjarnir Finnur, Helgi horski og Kjartan strjálbýlingur?

Hvar voru fjármunir Samvinnutrygginga ávaxtaðir? Í Landsbankanum að sjálfsögðu. Hverjir tóku þá út og ráðstöfuðu 30 milljörðum til kaupa á hlutabréfum í stórfjósunum, þar sem flórarnir standa enn fleytifullir? Má fá að líta á umboðin, sem úttektarmenn framvísuðu í bankanum?

Er það rétt, að þeir sem fengu VÍS-hlut Landsbankans keyptan fyrir kr. 6,8 milljarða hafi selt hann innan þriggja ára fyrir kr. 31,5 milljarða? Væri kannski rétt að „Sérstakur saksóknari" spyrði Finn Ingólfsson að því?

Formaður Einkavæðingarnefndar, Jón Sveinsson, framsóknarmaður, fékk, ásamt félögum sínum, Íslenska aðalverktaka keypta fyrir kr. 3,2 milljarða, að fyrirmælum þáverandi utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar, og áttu þeir félagar þó ekki hæsta tilboð í fyrirtækið. Fyrir rúmum þremur árum birtist frétt í Morgunblaðinu um sölu lóða í Blikastaðalandi, en þær höfðu fylgt með í sölu ÍAV. Blaðið kvaðst ekki hafa fengið upplýsingar um söluverð lóðanna, en það væri talið 16-18 milljarðar króna.

Ætti nú ekki „Sérstakur saksóknari" að efna sér í myndarlega fjósreku eftir að hann hefur misst norsk-frönsku jarðýtuna út í veður og vind?






Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×