Viðskipti innlent

Íslendingar henda 10 kílóum af gulli á ári

Auðvelt er að reikna út að Íslendingar hendi um 10 kílóum af gulli á hverju ári. Þetta gerist þegar landsmenn endurnýja farsíma sína. Andvirði þessa gulls, miðað við heimsmarkaðsverð, er um 57 milljónir kr.

Í frétt á vefsíðunni e24.no undir fyrirsögninni „Grafa eftir gulli í gömlum farsímum" kemur fram að eftir töluverðu sé að slægjast í því sem kallað er gullgröftur í úthverfum. Við hefðbundinn gullgröft er talið gott að fá 5 grömm af gulli út úr hverju tonni af gullgrýti. Í hverju tonni af gömlum farsímum eru hinsvegar allt að 300 grömm af gulli.

Þetta kemur fram í bók eftir prófessorinn Svein Stölen sem gefin verður út í mars n.k. Í Noregi seljast um 2 milljónir farsíma á hverju ári og því auðvelt að reikna út að þeir innihalda um 60 kíló af gulli. Er þá miðað við að hver farsími sé 100 grömm að þyngd.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni voru áskriftir að farsímum á Íslandi tæplega 330.000 á árinu 2009. Þessi fjöldi var kominn yfir 300.000 áskriftir þegar árið 2006. Þannig er auðvelt að reikna út að Íslendingar leggi eða hendi rúmlega 300.000 farsímum á ári hverju en í þeim eru, miðað við úteikninga Svein Stölen, um 10 kíló af gulli.

Í bók Stölen kemur þar að auki fram að fyrir utan gullið er að finna marga dýra snefilmálma eins og indium og ruthenium í gömlum farsímum.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×