Skoðun

Helgar tilgangurinn meðalið ?

Ari Teitsson skrifar

Sex dómendur Hæstaréttar felldu nýlega stjórnvaldsúrskurð þess efnis að kosningar til Stjórnlagaþings væru ógildar. Byggðu þeir úrskurð sinn m.a. á lögum um kosningar til Alþingis.

Tilefni umfjöllunar Hæstaréttar var kæra þriggja aðila varðandi meinta ágalla á framkvæmd stjórnlagaþingskosninga. Tveir kærenda hafa látið hafa eftir sér að þeir vildu ekki að haldið yrði Stjórnlagaþing eða vildu með öðrum orðum stöðva þann lýðræðisferil sem hófst með Þjóðfundi og skyldi fram haldið með stjórnarskrártillögum Stjórnlagaþings.

Kosningalög eru sett með það að leiðarljósi að þjóðfélagsþegnum séu tryggð þau grundvallarréttind lýðræðisins að kjósa í almennum kosningum og það gerðu um 84.000 þegnar í góðri trú í stjórnlagaþingskosningunum. Enginn hefur sýnt fram á að reynt hafi verið að spilla þeirri framkvæmd og ekki hafa niðurstöður kosninganna verið véfengdar.

Það hlýtur því að koma leikum jafnt sem lærðum undarlega fyrir sjónir að kosningalög, einn af hornsteinum lýðræðisins séu nýtt til að styðja óskir kærenda og eyðileggja jafnframt aðkomu 84 000 kjósenda að mögulegri styrkingu íslenskrar stjórnskipunar.

Íslandssagan greinir frá fjölda atburða þar sem beitt hefur verið lagakrókum og jafnvel lagaklækjum til að ná fram vilja þess sterka. Söguskýrendur framtíðarinnar munu trúlega velta fyrir sér hvort nýlegur úrskurður Hæstaréttar skuli talinn í hópi þeirra atburða.






Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×