Viðskipti innlent

Skrítin stemmning hjá Byr og Íslandsbanka

Alþingi samþykkti í gær sölu á hlut ríkisins í Byr til Íslandsbanka og munu bankarnir tveir sameinast undir merkjum Íslandsbanka. Sameiningin kallar á uppsagnir hjá báðum bönkum en ekki er enn ljóst hversu mörgum verður sagt upp en talið að um sé að ræða nokkra tugi starfsmanna.

Starfsfólk BYR og Íslandsbanka er uggandi yfir fyrirhuguðum uppsögnum vegna samruna bankanna að sögn formanna starfsmannafélaga bankanna.

„Það er mjög skrítin stemmning hér í dag og við hugsum að fólk sé stressað og allir hugsa náttúrulega bara um hvað verður um sig," segir Rebekka Helga Sveinsdóttir formaður starfsmannafélags Byrs.

Anna Karen Hauksdóttir, formaður starfsmannafélags Íslandsbanka segir að fólki hafi ekki orðið eins mikið úr verki. „Fólk hefur pínu áhyggjur og hefur svolítið verið að tala saman á kaffistofunum í dag, það verður eiginlega að segjast."

Tilkynnt var í gær að útibú Byrs í Reykjanesbæ, Hafnarfirði, Akureyri og Borgartúni verða sameinuð útibúum Íslandsbanka í næsta nágrenni en útibúin í Kópavogi og í Árbæ verða áfram starfrækt á sama stað. Uppsagnir í höfuðstöðvum fara fram í næstu viku en beðið verður með sameiningu útibúa fram yfir áramót svo þeir starfsmenn þurfa að vera í óvissu lengur. „Auðvitað hefði kannski verið bara best að gera þetta í einu lagi og þá er því bara lokið en þeir sem að koma til með að vera í hópnum eftir áramót þeir vita þá allavega af því."

Þær segja þó að ákveðinni óvissu hafi verið eytt í gær með samþykki samrunans og vonast til að eftir sameiningu verði bankinn enn sterkari. „Þarna eru að koma tveir flottir bankar saman og við teljum okkur hafa sterkt starfsfólk þar og góðan anda þannig að það eru líka tækifæri framundan vonum við." segir Anna Karen.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×