Skoðun

Villijurtafárið á Íslandi

Margrét Jónsdóttir skrifar
Það er segin saga að vaxi einhver jurt og dafni vel á Íslandi skal henni eytt. Lúpína, ösp, kjörvell, njóli, hvönn, sóley, fífill, arfi, gras og baldursbrá, allar þessar jurtir eru illgresi í augum margra og hafa viðkomandi hatursmenn þessara jurta sett nefndir á laggirnar um allt land til að ákveða hvernig skuli standa að eyðingu þeirra.

Í mörgum bæjarfélögum er gras svo illa séð að það þarf að slá grasflatirnar aftur og aftur, þangað til grasrótin er orðin sinubrún af ofþornun og bruna. Í öðrum bæjarfélögum er líka ráðist á allan fyrrnefndan villigróður og hann sleginn með ærnum tilkostnaði. Fólk virðist bara ekki vilja þennan fagra villigróður.

Í Reykjavík hefur þó gætt nokkurrar skynsemi í sumar og slátturinn sparaður ögn með þeim afleiðingum að fólk er bara orðið snælduvitlaust yfir „sóðaskapnum" eins og það kallar það þegar villigróður vex og hylur reyndar alvöru sóðaskapinn sem er í formi rusls sem íbúar landsins eru duglegir að losa sig við, allt árið, jafnvel út úr bílum á ferð.

Í mínum augum er villigróður ekki sóðaskapur en hvers konar rusl í vegköntum og almenningsbeðum, allt árið, það er sóðaskapur sem verður að fara að vinna á. Það er nefnilega ekki nóg að hreinsa einu sinni á ári (vorin) og svo ekki meira. Það þarf að hreinsa minnst fjórum sinnum á ári. Og víst mun það kosta eitthvað, en ég er með tillögu sem fellst í því að virkja atvinnulaust fólk svona tvo tíma á viku í ýmis þjóðþrifastörf.

Hættum að amast við þeim jurtum sem geta spjarað sig á landinu og reynum heldur að njóta þeirra. Það má nýta þær allar.




Skoðun

Sjá meira


×