Innlent

Raunveruleg framfærsluviðmið skortir enn

Hagsmunasamtök heimilanna telja útgáfu neysluviðmiða jákvætt skreff
Hagsmunasamtök heimilanna telja útgáfu neysluviðmiða jákvætt skreff
Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna ber að líta útgáfu skýrslu velferðarráðuneytisins jákvæðum augum. Mikilvægt er þó að hafa í huga að þau neysluviðmið sem kynnt eru í skýrslunni endurspegla ekki raunframfærslukostnað eða lágmarks framfærslukostnað heldur rauntölur um neyslu fólks á Íslandi seinustu ár.

Þetta kemur fram í ályktun sem Hagsmunasamtökin hafa sent frá sér í tilefni þess að neysluviðmið hafa verið reiknuð út. Fyrir ályktuninni eru skrifuð þau Vilhjálmur Bjarnason meðstjórnandi og Harpa Njálsdóttir félagsfræðingur, fyrir hönd Greiðsluerfiðleikateymis Hagsmunasamtakanna.

Til að skýra afstöðu sína til viðmiðanna segja þau að munurinn á útreiknuðum neysluviðmiðum og raunframfærsluviðmiðum felist í því að annars vegar er miðgildi raunneyslu mælt út frá fyrirliggjandi tölum Hagstofunnar en hins vegar er eðlileg raunframfærsla fundin út af sérfræðingum og er þá miðað við að þeir setji saman ýtarlega vöru, þjónustu og neyslukörfu sem á að teljast fullnægjandi lýsing á hóflegri eða eðlilegri framfærsluþörf fjölskyldu af tiltekinni stærð á tilteknum stað á tilteknum tíma. Raunframfærslukostnaður og lágmarks framfærsluviðmið unnin út frá þeim hafa um margra ára skeið verið opinber á öðrum Norðurlöndum, svo sem Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Þau telja að af efni nýútkominnar skýrslu velferðarráðuneytisins er ekki hægt að segja til um hvort og þá hversu margir eru með ráðstöfunartekjur undir framfærslukostnaði eða hvað þá lágmarks framfærslukostnaði. Margt bendir þó til þess að mjög margar fjölskyldur safni skuldum um hver mánaðarmót eða lifi við skort brýnna nauðsynja. Sérstaklega á þetta við um barnafjölskyldur auk heimila sem þurfa að treysta á bætur og / eða framfærslu hins opinbera auk fjölda fólks í láglaunastörfum sem eru í raun föst í fátækragildru.

„Stjórnvöldum ber skylda að komast að því hver raunframfærslukostnaður heimilanna er svo unnt sé að lögfesta raunframfærslu og lágmarksframfærsluviðmið unnin út frá þeim. Á meðan sú vinna stendur yfir er nauðsynlegt að hið opinbera gefi nú þegar út lágmarksframfærsluviðmið til bráðabirgða sem taki mið af nýkynntum neysluviðmiðum. Þessi krafa er þar að auki byggð á 25. grein Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna," segir í ályktuninni.

Án þess að draga dul á hækkunarþörf launa að raunframfærsluviðmiðum vilja Hagsmunasamtök heimilanna benda á að eindregin krafa þeirra um almenna leiðréttingu stökkbreyttra íbúðalána er ein öflugasta kjarabót sem völ er á. Sú leiðrétting hefði veruleg áhrif til lækkunar á framfærslukostnaði þorra almennings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×