Skoðun

Verkfall leikskólakennara

Guðrún Jónsdóttir skrifar
Nú vofir yfir að leikskólakennarar fari í verkfall á fyrstu vikum nýs skólaárs. Aðilar hafa reynt að ná saman en enn hafa samningar ekki náðst. Leikskóli er fyrsta skólastigið hér á landi fyrir börn undir skólaskyldualdri. Mikill meirihluti foreldra nýtir sér þessa þjónustu og er ljóst að þjóðfélagið í heild reiðir sig á að leikskólar landsins starfi eins og lög gera ráð fyrir.

Það er skilmerkilega gerð grein fyrir hlutverki leikskóla í grunnskólalögunum frá 2008.

Þar þarf vandað og metnaðarfullt fólk til að sinna því hlutverki sem leikskólunum er ætlað.

Foreldrar eiga mikið undir að í leikskólunum sé fólk sem starfar af heilindum og nýtur sín í starfi.

Við viljum að leikskólakennarar séu vel menntaðir og fái sanngjörn laun fyrir sín störf. Sé þess ekki gætt leitar hæft fólk úr stéttinni og leikskólarnir búa börnunum okkar ekki þau skilyrði sem best verður á kosið.

Efnahagur landsins á nú á brattann að sækja. Flestir átta sig á að við þurfum öll að taka skellinn á meðan leitast er við að rétta hag okkar. Þó ber að gæta þess að þær stéttir sem urðu eftir í launaskriði góðærisins geta engan veginn unað við sinn hag í því árferði sem nú er.

Markmiðið er að allir hafi hér viðunandi afkomu og jafnframt með það leiðarljós að faglegt starf og metnaður sem byggður hefur verið upp undanfarna áratugi renni ekki í súginn.

Leikskólar landsins þurfa áfram að vera metnaðarfullar og faglegar stofnanir sem hlúa að börnunum á uppbyggilegan og markvissan hátt. Það er mikið hagsmunamál fyrir allt þjóðfélagið til langs og skamms tíma að ekki verði verkfall 22. ágúst. Það varðar okkur öll að samningar náist um viðunandi kjör fyrir leikskólakennara í landinu.




Skoðun

Sjá meira


×