Erlent

Samóar halda áramótin snemma

Þegar íbúar á Samóaeyjum í Kyrrahafinu, vakna á föstudaginn, munu þeir halda upp á áramótin sama kvöld. Ástæðan er sú að þeir hafa ákveðið að sleppa 30. desember.

Stjórnvöld hafa nefnilega ákveðið að sleppa heilum degi af árinu. Þannig á föstudaginn verður gamlársdagur í staðinn fyrir 30. desember eins og hjá okkur hinum.

Ástæðan er reyndar ekki óþolinmæði eyjaskeggja, heldur hafa stjórnvöld ákveðið að breyta tíma sínum þannig að hann sé í samræmi við klukkuna í Nýja Sjálandi og Ástralíu. Það eru þau tvö lönd sem eyjaskeggjar versla hvað mest við. Markaðir í þeim löndum verða opnaðir og verslun hafin á sunnudaginn, sé tekið mið af okkar tímatali.

Ritstjóri dagblaðsins, Samoa Observer, segir breytinguna ekki umdeilda þar í landi. Kannski vegna þess að starfsfólk græðir frídag, en fyrirtækjum er skylt að greiða öllum laun fyrir daginn.

Þetta er í annað skiptið sem tímatalinu er breytt á Samóaeyjum. Árið 1892 breytti konungur eyjanna tímatalinu þannig það passaði við það bandaríska. Þá fyrirskipaði konungurinn að fjórði júlí skyldi standa tvo daga í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×