„Helstu áhættuþættir flugs á Íslandi í dag eru að mínu mati tengdir hinu opinbera, þar á meðal innanríkisráðuneytinu, rekstrarfélagi flugumferðarþjónustu og flugvalla á Íslandi – ISAVIA og Landhelgisgæslu Íslands og því fjárhagsumhverfi sem þessum stofnunum er gert að vinna í," skrifar Kári Kárason, fráfarandi formaður Öryggisnefndar Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA), í fréttablað félagsins.
Kári er áhyggjufullur yfir niðurskurði í öryggismálum sem hann segir í raun miskunnarlausan. Niðurskurðurinn hafi meðal annars orðið til þess að flugvöllum hafi verið lokað, sem leiði af sér færrri lendingarstaði fyrir loftför í hrakningum.
Kári skrifar í grein sína að innanríkisráðuneytinu skorti sérþekkingu á flugi.
Sjálfur skrifar Kári af reynslu þegar hann segir að vindpoki, sem hafði verið tekinn niður á Keflavíkurflugveli án nokkurra ráðstafanna, hafi leitt í ljós að starfsmenn flugvallarins töldu ekki þörf á að láta neinn vita af þessu og áttu ekki vindpoka til vara þar sem niðurskurður væri mikill á öllum sviðum að þeirra sögn.
Til útskýringar skrifar Kári, og ávarpar félagsmenn. „Allir okkar þekkja aðstæður í sterkum vindi við braut 11 í Keflavík, vindur þar er ekki sá sami og við miðjan völl og alls ekki sá sami og meðaltalsmælar turnsins sýna. Áhyggjuefnið er kannski ekki það að rekstraraðili flugvallarins hafði ekki efni á nýjum vindpoka, heldur viðhorf þessara aðila til almenns flugöryggis og kannski þekkingarleysis þeirra á okkar aðstæðum."
Kári tekur bætir svo um betur og skrifar:
„Hundruðum milljóna króna er veitt í sí-aukna flugvernd á Keflavíkurflugvelli, það eru ráðnir fleiri öryggisverðir og fjárfest í nýjum gegnumlýsingarbúnaði fyrir hundruð milljóna á næstu árum. Þetta þykir ekkert tiltökumál. Hærri skattar á farþega eiga að leysa málið.
Hvort að þeir dugi til að kaupa auka sett af vindpokum skal ósagt látið - en flugmenn verða að láta í sér heyra ef við eigum að veita þessari þróun viðspyrnu. Flugvernd er góðra gjalda verð, en almennt flugöryggi má ekki líða fyrir ofuráherslu á flugvernd. Hvet ég alla flugmenn til að hafa augun opin og greina hættur í aðstæðum sem þessum enda er það skylda okkar að vara aðra flugmenn við áhættunni sem af þessu stafar."
Hægt er að nálgast fréttabréf FÍA hér.
