Skoðun

Um jafnrétti til náms

Guðfinnur Sveinsson skrifar

Röskva eru samtök félagshyggjufólks við Háskóla Íslands. Okkar rauði þráður er krafan um jafnrétti til náms. Við viljum háskóla sem er fyrir alla, óháð samfélagsstöðu.

Þessari kröfu er ógnað úr mörgum áttum. Ríkið skar niður um tæpar 700 milljónir til HÍ í síðustu fjárlögum. Það þýðir að okkur vantar fjármagn með tæplega 1000 nemendum. Þetta er óásættanlegt. Afhverju?

Háskólinn hefur nú þegar óskað eftir því að fá að hækka skrásetningargjöld - skólagjöld í dulbúning - en fékk nei. Skólinn mun halda áfram að óska eftir þessu því það vantar fjármagn. Háskólinn mun einnig þessa dagana útfæra leiðir um það hvernig skuli fjöldatakmarka við skólann. Fjöldatakmarkanir? Það þegar nemendum er hafnað um ósk sína að stunda nám við skólann, ekki útaf verðleikum hvers og eins, heldur útaf fjármagni sem vantar. Getum við sætt okkur við þetta? Mitt svar er nei.

Stúdentapólitíkin hefur ýmsar birtingarmyndir sem eru misheillandi. Fyrir mér skiptir það ekki máli. Það sem á að skipta máli og skiptir raunverulega máli er akkúrat þessi krafa, krafan um nægt fjármagn til að tryggja jafnan rétt til náms.

Röskva hefur sérstöðu á þessu sviði, að þora að berjast fyrir utan háskólann, berjast fyrir stóru málunum. Við þurfum að berjast fyrir meiri fjármunum inní háskólann og við sættum okkur ekki við það að þurfa að borga skrásetningargjöld, hvað þá ef þau halda áfram að hækka. Ef einhver ætlar að segja mér að stöðumælar skipti máli í þessu samhengi, þá leyfi ég mér að andmæla þeim hinum sama.

Það er mikilvægt að stúdentar geri sér grein fyrir því að þetta snertir hvern einn og einasta mann og konu sem stundar nám við háskólann. Það er mikilvægt að fólk kynni sér málin og kjósi þá sem eru trúverðugustu málsvarar þessarar hugsjónar, hugsjónarinnar um jafnan rétt til náms.

Þetta er einfalt, ég vil byggja sterkan og góðan háskóla fyrir alla, ekki bara suma. Treystiru mér til þess að berjast fyrir þessu? Það kemur í ljós í kosningunum í dag og á morgun.

Guðfinnur Sveinsson

1. sæti á lista Röskvu til Stúdentaráðs 2011






Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×