Skoðun

Kveikjum á Rafheimum

Ólafur Örn Pálmarsson skrifar
Í náttúrufræðinámi er nauðsynlegt að nemandinn læri ákveðin grunnatriði í formi hugtaka og almennum orðaforða en fái síðan að upplifa, prófa og skynja bóknámið. Það má gera með verklegum athugunum til að setja nýju þekkinguna í samhengi við eigin upplifun. Þannig nám fór fram í Rafheimum sem reknir voru af Orkuveitu Reykjavíkur en var lokað vegna niðurskurðar á haustmánuðum.

Rafheimar voru eina vísindasafnið sem tók á móti nemendum á aldrinum 6-20 ára þar sem nemendur gátu fræðst um allt sem tengist rafmagni og framkvæmt sínar eigin tilraunir í fámennum hópum undir leiðsögn. Á safnið komu árlega vel á þriðja þúsund nemendur en flestar heimsóknir voru í aldurshópnum 10-12 ára.

Niðurstöður í PISA-rannsókninni fyrir árið 2009 sýna að Ísland er talsvert undir meðallagi í náttúrufræði innan OECD. Rannsóknir hafa einnig sýnt að verkleg kennsla í náttúrufræði í grunnskólum landsins er mjög lítil. Lítil ásókn ungs fólks í raungreinanámi á Íslandi og innan Evrópusambandsins er áhyggjuefni en einn af mikilvægum þáttum í að efla ásóknina eru vísindasöfn fyrir nemendur. Mikilvægt er að áhugi nemanda sé glæddur á náttúrufræði með fjölbreyttu starfi hvort sem það er í daglegu starfi skólanna, vísindasöfnum, heimsóknum í fyrirtæki sem byggja á raunvísindum eða einstökum viðburðum eins og Vísindavöku. Þannig er stuðlað að því að fleiri nemendur líti á starf við raungreinar sem raunhæfan og spennandi valkost sem mun síðar skila þjóðfélaginu miklum ábata.

Í heimsóknum mínum með nemendur af unglingastigi í Rafheima hef ég séð hvernig áhugi nemendanna á eðlisfræði hefur verið vakinn. Þar hafa þeir lært nýja hluti og haft ánægju af fjölbreyttum verkefnum. Ég skora á Orkuveitu Reykjavíkur, Reykjavíkurborg og mennta- og menningarmálaráðuneytið að vinna að því að starfsemi Rafheima geti hafist að nýju.




Skoðun

Skoðun

76 dagar

Erlingur Sigvaldason skrifar

Sjá meira


×