Lífið

Fer með aðalhlutverkið í Axlar-Birni hjá Vesturporti

Helgi leikur í verki Vesturports um Axlar-Björn og er einnig að gefa út plötuna Ég vil fara upp í sveit.
Helgi leikur í verki Vesturports um Axlar-Björn og er einnig að gefa út plötuna Ég vil fara upp í sveit. Mynd/Stefán
„Þetta verður rosalega skemmtilegt. Ég er búinn að vera að spá í þetta í smá tíma að það væri gaman að fara á leiksvið aftur. Ég hef verið að skoða bisnessplön alltof lengi," segir Helgi Björnsson.

Helgi leikur aðalhlutverkið í verki Vesturports byggt á þjóðsögunni um fjöldamorðingjann Axlar-Björn. Verkið verður frumsýnt í haust og mun Björn Hlynur Haraldsson leikstýra. Atli Rafn Sigurðarson mun að öllum líkindum leika á móti Helga og mögulega fara þeir með öll hlutverkin sjálfir en verkið er í mótun þessa dagana. Kjartan Sveinsson úr Sigur Rós semur tónlistina og um búningahönnun sér tískuhönnuðurinn Mundi vondi. Verkið fékk fjögurra milljóna styrk frá velgerðarsjóði Auroru fyrr á árinu.

Helgi steig síðast á leiksvið í söngleiknum Rent fyrir tíu árum. Hann er spenntur fyrir samstarfinu við Vesturport. „Þau reyndu að fá mig í Rómeó og Júlíu í London. Við höfum verið að tala um ýmislegt í gegnum tíðina en ég hef aldrei haft tíma því það er ákveðin binding sem felst í svona hlutverki."

Hann er með fleiri járn í eldinum því þriðja plata hans og Reiðmanna vindanna, Ég vil fara upp í sveit, kemur út á mánudaginn. Auk titillagsins eru á plötunni fleiri gömul lög í nýjum búningum, þar á meðal Ég berst á fáki fráum - Sprettur, Það er svo geggjað að geta hneggjað og Angelía. „Við erum að róta aðeins í okkar dægurlagaarfi, ekki ósvipað og menn eins og Bob Dylan og Robert Plant hafa verið að gera," segir Helgi.

Síðustu tvær plötur Helga og Reiðmannanna hafa selst eins og heitar lummur eða í 21 þúsund eintökum. Þú komst í hlaðið var langsöluhæst í fyrra og hefur núna selst í hátt í tólf þúsund eintökum. Helgi vill sem minnst spá fyrir um vinsældir nýju plötunnar. „Ég vona bara að fólki líki vel við hana eins og með hinar og svo sjáum við bara til hvernig hún plumar sig."

Hann verður á landsmóti hestamanna sem fer fram 26. júní til 3. júlí þar sem hann ætlar að spila nýju lögin. Einnig má geta þess að Helgi ætlar að gera tónleikana sem hann hélt í Hörpunni á 17. júní að árlegum viðburði enda þóttu þeir takast sérlega vel.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.