Skoðun

Hugsað upphátt

Jón Kr. Óskarsson skrifar
Það hefur ýmislegt komið í huga minn undanfarnar vikur um málefni eldri borgara á landinu. Erum við annars eða þriðja flokks fólk?

Skýrsla sem birtist fyrir nokkrum um aðbúnað eldra fólks á hjúkrunarheimilum á Íslandi skelfir mann, er það virkilega svo að eldra fólk hér á landi eigi ekki betra skilið en þar kemur fram? Eigum við sem skópum þetta þjóðfélag, þessa velferð með vinnuframlagi okkar, sköttum til ríkis og sveitarfélaga ekki betra skilið? Mér finnst að ráðamenn þjóðarinnar verði að taka á þessum málum og það strax.

Er ég tala um velferðarríki, þá sé ég ekki þetta velferðarþjóðfélag hér á landi, eins og ég þekki til í Þýskalandi t.d., þar sem fjölskyldur fá tannlækningar fríar, sjúkraþjálfun fría, hjón fá barnabætur með börnum sínum til 24 ára aldurs ef þau búa í heimahúsi og stunda t.d. háskólanám. Er sambærileg velferð hér á landi, ekki sé ég það. Held við ættum að athuga okkar gang, hætta að ræða um hvað velferðarstjórn eða velferðarríkisstjórn er hér á landi, það tel ég algjört öfugmæli.

Einu hefur skotið upp í kolli mínum undanfarnar vikur. Stéttarfélög hafa staðið í samningaviðræðum um kaup og kjör. Hvergi hef ég séð að eldri borgarar hafi innan samninganefnda, hvorki atvinnuveitenda eða launþega, fulltrúa í þessum samninganefndum en slíkt þekkist á Norðurlöndum t.d.

Ég skora því á ASÍ, BSRB, BHM og stóru stéttarfélögin, t.d Rafiðnaðarsamband Íslands og Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og kennarasamtökin, að athuga þessi mál og huga betur að málefnum sinna eldri félaga, því langflestir verða sem betur fer aldraðir.

Það er sárgrætilegt að hugsa til þess hvernig ríkisvaldið hefur leikið eldri borgara á liðnum mánuðum og árum. Er ef til vill komið að þeim tímapunkti að eldri borgarar bjóði fram sérstaklega til Alþingis og sveitarstjórna? Í Ísrael var sett á fót framboð eldri borgara fyrir um það bil tveimur árum og þeir náðu nokkrum þingmönnum þannig að réttar raddir heyrðust frá eldri borgurum þar í landi. Þar fékk þetta framboð allgóðan stuðning frá börnum og barnabörnum. Við skulum minnast þess að Adenauer, Churchill og De Gaulle voru upp á sitt besta um áttrætt í pólitík.

Það er verið að ræða um virðisaukaskatt þessa dagana. Hvergi hef ég séð að lækka eigi virðisaukaskatt á lyfjum sem eru mikil útlát fyrir eldri borgara, við gleymumst þar sem annars staðar.

Í sambandi við ályktanir frá eldri borgurum virðist vera mjög erfitt að koma þeim á framfæri við fjölmiðla, hvað veldur? Á sama tíma geta alls konar ungliðahreyfingar komið sínum ályktunum mjög fljótt á framfæri, hvað veldur?

Við erum þó yfir 20% af kosningabærum þjóðfélagsþegnum og allir vilja atkvæði okkar í kosningum.

Nóg að sinni.




Skoðun

Sjá meira


×