Erlent

iPad fyrir apa

Orangútan niðursokkinn í stafræna skemmtun.
Orangútan niðursokkinn í stafræna skemmtun. Mynd/Orangutan Outreach
Órangútanar í dýragarðinum í Milwaukee hafa undanfarið fengið að leika sér með iPad spjaldtölvur. Þeir gætu fljótlega orðið þess megnugir að hringja myndsímtöl í loðna félaga sína annars staðar í heiminum.

Richard Zimmerman sem rekur griðarstaðinn Orangutan Outreach stendur fyrir þessari nýlundu. „Við vildum gefa þeim færi á að vera eins og lítil börn," sagði Zimmerman.

Fyrsta skrefið var að kynna teikniforrit og aðra einfalda hluti fyrir öpunum. Það hefur svo undið upp á sig og undanfarið hafa þeir horft á myndbönd og fleira. „Einn þeirra er einlægur aðdáandi David Attenborough. Flestir eru þeir þó hrifnastir af því að horfa á myndir af sjálfum sér, svo það er pínu hégómi í gangi," segir Zimmerman.

Næsta skref verður að koma upp þráðlausu netsambandi svo aparnir geti hringt út í heim þegar fram líða stundir. „Draumurinn er að koma á skype sambandi milli dýragarða," segir Zimmerman. Orangútar geta tjáð sig á marga vegu. „Þeir gera alls konar óhljóð, rúlla í sér augunum og stara hver á annan. Það er magnað að fylgjast með," segir Zimmerman sem þegar hefur gert ákveðnar tilraunir með myndsímtöl apa.

Aparnir fá aðeins að nota tölvurnar tvisvar í viku, stutta stund í senn.

Helsta áhyggjuefnið varðandi þessa nútímalegu skemmtun apanna er hvernig á vernda þessi dýru leiktæki. Orangútarnir hafa ekki mikinn skilning á verðmæti spjaldtölvanna eða viðkvæmni þeirra. „Þegar þeir fá græjuna í hendurnar getur verið að hún endist ekki lengur en 15 sekúndur eftir það," segir Zimmerman. Eins og stendur fylgjast starfsmenn dýragarðarins grant með þegar aparnir fá tölvurnar til afnota, en stefnt er að því að hanna endurbætta og styrkta útgáfu af spjaldtölvunni, iPad fyrir apa




Fleiri fréttir

Sjá meira


×