Erlent

Fann dóttur sína á lífi sjö árum eftir flóðbylgju

Frá flóðunum í Indónesíu árið 2004.
Frá flóðunum í Indónesíu árið 2004. mynd/AP
Það eru ekki oft sem kraftaverk gerast en það má með sanni segja að sagan af litlu stúlkunni sem talið var að hefði týnt líf í flóðbylgjunni í Indónesíu árið 2004, sé kraftaverki líkust.

Á annan í jólum árið 2004 skall flóðbylgja á Indónesíu eftir að jarðskjálfti upp á 8,9 á richter varð á botni Indlandshafs. Talið er að yfir 150 þúsund manns hafi týnt lífi, þar á meðal átta ára gömul stúlka, sem kölluð er Wati.

Wati litla var með móður sinni og systkinum sínum þegar að flóðbylgjan skall á þorpið Ujong Baroh á Sumatra-eyjum, en fjölskyldan bjó þar.

Móðir stúlkunnar var á leið með börnin sín í skjól þegar hún missti takið á Wati litlu með þeim afleiðingum að hún rann út í straumharðan sjóinn og hvarf svo fljótlega úr augsýn móðurinnar. Þrátt fyrir mikla leit fjölskyldunnar af litlu stúlkunni fannst hún aldrei og var gert ráð fyrir því að hún hefði týnt lífi í þessum miklu hörmungum.

Nú sjö árum síðar, nánar tiltekið á miðvikudaginn síðasta, hitti afi hennar kunningja sinn og með honum í för var unglingsstúlka. Honum þótti hún svipa til Wati litlu en hún man ekkert um uppruna sinn og kom alveg af fjöllum þegar hann spurði hana hvort hún kannaðist við fjölskyldu sína og sjálfan sig.

Hann hafði samband við dóttur sína, móður Wati litlu, sem kom á staðinn ásamt eiginmanni sínum. Eftir að hafa hitt hana voru þau alveg sannfærð um að stúlkan væri dóttir sín og þá sérstaklega vegna þess að hún er með ör á nákvæmlega sama stað og Wati litla fékk þegar hún var sex ára.

Samkvæmt fréttum er óljóst hvað varð um Wati litlu á þessum sjö árum sem hún var týnd. Og þá fylgir ekki sögunni hvort að hún hafi ákveðið að koma heim með "mömmu sinni og pabba". En ef grunur foreldra hennar er réttur þá verður það að teljast kraftaverki líkast að dóttir þeirra birtist þeim, sjö árum eftir að þau töldu hana látna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×