Erlent

Krísa í Hollywood

Harry Potter og dauðadjásnin Part II var vinsælasta kvikmynd ársins.
Harry Potter og dauðadjásnin Part II var vinsælasta kvikmynd ársins. mynd/Warner Brothers
Hollywood virðist hafa glatað sjarmanum á þessu ári. Ekki hafa færri heimsótt kvikmyndahús í Bandaríkjunum í 16 ár.

Samkvæmt miðasöluvefnum Hollywood.com voru heildar sölutekjur kvikmyndahúsanna þar landi rúmir 10 milljarðar dollarar en það er 3.5% minna en á síðasta ári. Miðaverð hækkaði einnig á árinu og því voru gestir kvikmyndahúsanna mun færri en í fyrra.

Um 1.28 milljarðar aðgöngumiða seldust á árinu en það var síðast árið 1995 sem færri miðar seldust, eða um 1.26 milljarðar.

Talið er að slæmt efnahagsástand í Bandaríkjunum og hærra miðaverð spili stóran þátt í slæmu gengi kvikmyndaiðnaðarins. Að auki hafa kvikmyndaspekingar gagnrýnt kvikmyndaframleiðendur fyrir að fjárfesta í fyrirsjáanlegum framhaldsmyndum og endurgerðum.

Sérfræðingar í Hollywood hafa þó bent á að það sé í raun ógerlegt að bera árið 2011 við síðasta ár. Stórmynd James Cameron, Avatar, var einmitt frumsýnd í fyrra en hún er vinsælasta kvikmynd allra tíma.

Þrátt fyrir slæmt gengi síðastliðið ár eru framleiðendur í Hollywood þó bjartsýnir. Á næsta ári verða nokkrar stórmyndir frumsýndar, þar á meðal eru The Dark Knight Rises, Men in Black 3, The Hobbit og The Avengers.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×