Viðskipti innlent

Gríðarlegur áhugi á Högum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hagar reka meðal annars Bónus og Hagkaup.
Hagar reka meðal annars Bónus og Hagkaup.
Áhugi fjárfesta á að eignast hlut í Högum virðist vera gríðarlegur. Gengið hefur hækkað snarlega frá því að bréfin voru skráð í Kauphöll Íslands í morgun. Bréfin voru seld á 13,5 á hlut fyrr í desember en gengi þeirra hefur verið í um sextán krónum það sem af er degi.

Þetta er fyrsta skráning fyrirtækis í Kauphöllina frá því snemma á árinu 2008, eða í tæp fjögur ár. Páll Harðarson, forstjóri Kauphallarinnar, sagði við fréttastofu í gær að sá áhugi sem væri fyrir hlutabréfum í Högum yki bjartsýni fólks á markaðnum. Fjöldi fyrirtækja hefði hug á skráningu á markað á næstu mánuðum og árum. Nefndi hann þar sem dæmi Horn, dótturfélag Landsbankans, auk fleiri fyrirtækja.

30% hlutur í Högum var seldur eignarhaldsfélaginu Búvöllum fyrir ári síðan og var sá hlutur seldur á genginu 10. Búvellir keyptu svo 10% til viðbótar fyrir fáeinum vikum á genginu 11. Það er því ljóst að þeir sem standa að baki félaginu, sem eru fjárfestarnir Árni Hauksson, Hallbjörn Karlsson auk fjárfestingasjóða, hafa ávaxtað pund sitt vel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×