Erlent

Þúsundir minnast Havel: Uppáhaldstónlistin hans spiluð í útvarpinu

Þúsundir minntust Halvels í kvöld.
Þúsundir minntust Halvels í kvöld.
Þúsundir manna minntust Vaclav Havel á Venceslaw torginu í Prag, höfuðborg Tékklands, í kvöld. Havel lést í morgun en hann er þjóðhetja í Tékklandi eftir að hann leiddi flauelsbyltinguna þar í landi árið 1989, sem að lokum batt enda á alræðisstjórn kommúnismans þar í landi. Hann gegndi forsetaembætti Tékkóslóvakíu í þrjú ár frá þeim tíma og var kosinn fyrsti forseti Tékklands árið 1993 eftir að Tékkóslóvakíu var skipt í tvö ríki.

Hann var framfarasinnaður maður og leiddi meðal annars landið inn í Evrópusambandið og NATÓ.

Fjöldi manna stóðu í biðröð til þess að kveikja á kerti honum til minningar. Þá skrifuðu margir sína hinstu kveðju til Havel og lögðu á minnisvarða um flauelsbyltinguna. Á einum þeirra þakkar landi Havels honum fyrir að færa þjóðinni lýðræðið.

Fjöldi ungs fólks var meðal þeirra sem minntust Havel í kvöld. Í viðtali við AP fréttastofuna sagði Barbora Rubova, sem fæddist tveimur árum eftir byltinguna: „Hann lagði hornsteininn að lýðræðinu fyrir okkur hin."

Havel var leikskáld. Þá leikstýrði hann kvikmyndinni „Leaving" sem er gerð eftir hans eigin handriti. Tékkneska ríkissjónvarpið mun sýna þá kvikmynd í kvöld honum til heiðurs. Ríkisútvarpið mun svo spila uppáhaldslögin hans. Þess má geta að Havel hafði unun af rokktónlist. Hann var einlægur aðdáandi Frank Zappa og Velvet Underground.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, minntist Havels í dag. Hann sagði leiðtogann hafa hrist í stoðum stórveldis með friðsamlegum aðgerðum. Hann afhjúpaði þá miklu kúgun sem þjóðin stóð frammi fyrir með hættulegasta vopninu af þeim öllum; öflugri forystu.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, minntist einnig Havels, sem var góður vinur hennar. Hún sagði í samtali við Stöð 2 í kvöld að Havel hefði fyrst séð hafið hér á landi.


Tengdar fréttir

Vaclav Havel látinn

Vaclav Havel, fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Tékklands, lést í nótt. Hann var 75 ára gamall. Havel leiddi flauelsbyltinguna í Tékkóslóvakíu árið 1989 sem batt enda á alræðisstjórn kommúnismans þar í landi.

Vigdís um Havel: Sá hafið fyrst á Íslandi

Vaclav Havel, fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Tékklands, lést í morgun, sjötíu og fimm ára að aldri. Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands segir mikinn sjónarsvipti vera að góðum vini.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×